Fer enginn í Rússasjó á þessu ári?

Deila:

Nú eru um 72% þorskkvótans innan lögsögu komin á land, þegar um 65% eru liðin af fiskveiðiárinu. Aflinn er orðinn 131.509 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, en leyfilegur heildarafli er 182.608 tonn. Í fyrra var kvótinn 217.042 tonn og veiddust 213.561 tonn, en afgangurinn var fluttur yfir á þetta ár.

Úr lögsögu Noregs í Barentshafi eru nú komin 3.696 tonn af þorski, en leyfilegur afli þar er 5.456 tonn. Kvóti í Barentshafi innan lögsögu Rússa samkvæmt gildandi fiskveiðisamningi hefur ekki verið gefinn út, en hann var tæplega 4.300 tonn í fyrra. Í ljósi aðstæðna gæti farið svo að engin skip fari í Rússasjó á þessu ári.

Ljóst er að niðurskurður þorskkvótans um 13% mun koma fram þegar líður á sumar. Samdrátturinn samsvarar nokkurn veginn einum mánuði í veiðum. Fyrir vikið eru nokkur af stærri þorskvinnslufyrirtækjum gefið út að sumarfrí verði nú tveir mánuðir í stað eins, eins tíðkast hefur undanfarin ár.

14 skip hafa nú landað meiru en 2.000 tonnum af þorski úr lögsögunni á fiskveiðiárinu. Aflshæstu skipin eru Drangey SK með 3.250 tonn, Kaldbakur EA með 3.230 tonn, Björgúlfur EA með 3.146 tonn, Sólberg ÓF með 3.139 tonn (Sólberg hefur auk þessa landað 1.427 tonnum af þorski úr Barentshafi), Björg EA með 3.086, Málmey SK með 2.887 tonn, Viðey RE með 2,677 tonn, Bárður SH með 2.636 tonn, Akurey RE með 2.493 tonn, Björgvin EA með 2.303 tonn, Sighvatur GK með 2.073 tonn, Páll Pálsson ÍS með 2.068 tonn, Páll Jónsson GK með 2.048, og Sirrý ÍS með 2.39 tonn.

Deila: