Sjávarútvegsráðherra opnar alþjóðlegu sjávarútvegssýninguna í Höllinni

Deila:

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra flytur ávarp á opnunarhófi Sjávarútvegssýningarinnar/Iceland Fishing Expo 2019 og setur hana formlega n.k. miðvikudag. Ráðherra mun síðan ganga um sýninguna og heilsa upp á sýnendur. Á opnunarhófinu verða einnig veittar viðurkenningar til aðila er hafa staðið sig vel á sviði sjávarútvegsins.

Sjávarútvegssýningin/Iceland fishing Expo 2019 verður ennþá stærri, fjölbreyttari í ár og sýnt í öllum þremur sölum Laugardalshallar í stað tveggja á sýningunni sem haldin var 2016. Sýnendur verða einnig á útisvæðum. Það munu 120 fyrirtæki taka þátt í ár, sem er töluverð aukning frá fyrstu sýningunni.

 

Forsetahjónin Eliza Reed og Guðni Th. Jóhannesson, opnuðu síðustu sjávarútvegssýningu í Laugardalsöllinni.

Sýnendur eru bæði innlendir og erlendir og sýna tækjabúnað og kynna alls kyns þjónustu. Þá verða nýsmíðaðir bátar á útisvæðum. Íslensk tæknifyrirtæki eru hér í fremstu röð og hefur sýningin vakið athygli víða um heim og kemur fjöldi erlendra gesta til landsins af þessu tilefni. Sýningin verður opnuð kl. 14.00 miðvikudaginn 25. september og verður opin þann dag til kl. 19. Á fimmtudag og föstudag verður opið kl. 10.00-18.00 . Múlakaffi verður með fjölbreytta veitingaþjónusta allan sýningartímann.

 Tolli sýnir sjávartengdar myndir 

Sú skemmtilega nýbreytni verður á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll að þar verður listamaðurinn Tolli með sérstaka sýningu á sjávartengdum myndum sínum. Hafið og sjómennskan er Tolla hugleikin, líkt og mörgum öðrum íslenskum listamönnum, og milli þess sem gestir Sjávarútvegs 2019 skoða tæki og tól eða fræðast um þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi geta þeir brugðið sér á sýningu listamannsins.

Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Því er dreift til fyrirtækja um allt land, en það má einnig sækja á heimasíðu Ritforms á slóðinni https://ritform.is

 

 

 

 

Deila: