„Afkoma viðunandi í ljósi aðstæðna“
Hagnaður VSV-samstæðunnar var 30% minni á árinu 2017 en á fyrra ári. Hann nam tæplega 8,7 milljónum evra í fyrra en var tæplega 12,5 milljónir evra árið 2016. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf..
Framlegð samstæðunnar (EBITDA) minnkaði um 23% frá fyrra ári. Hún var 15,6 milljónir evra árið 2017 en 20,4 milljónir evra 2016.
Eiginfjárhlutfall var 32% í lok árs 2017 og hafði lækkað um 1%.
Heildarskuldir og skuldbindingar jukust um 29% vegna fjárfestinga í varanlegum rekstrarfjármunum, kaupa á Útgerðarfélaginu Glófaxa og hækkunar handbærs fjár.
Fjárfestingar Vinnslustöðvarinnar voru miklar á árinu. Félagið hefur tekið í gagnið nýtt uppsjávarfrystihús, frystigeymslu, mjölhús og hráefnisgeyma á athafnasvæði sínu. Þá var nýr togari, Breki VE, eignfærður á árinu 2017. Skipið var smíðað í Kína og er einmitt núna á leið þaðan til Íslands, rétt ókomið til Sri Lanka að loknum fyrsta áfanga siglingar til heimahafnar.
Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem jafngildir 968 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Þetta er fimmta árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra.
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, fjallaði um reikninga félagsins á aðalfundinum:
„Afkoma félagsins var viðunandi 2017 í ljósi aðstæðna. Rekstrarskilyrðin voru erfið og fara versnandi, sem skýrist af háu gengi krónunnar og kostnaðarhækkunum, fyrst og fremst stórauknum launakostnaði í fyrra. Mér líst satt best að segja ekkert á blikuna.
Umræðan í samfélaginu snýst hins vegar mest um stórfelldar launahækkanir á næstunni, sem hver hópurinn á fætur öðrum ætlar sér að sækja með góðu eða illu, og um aukna skattlagningu út og suður, helst á atvinnugreinar sem halda landsbyggðinni gangandi.
Okkur hér í Eyjum hefur tekist með þróttmiklu atvinnulífi að koma í veg fyrir fækkun fólks. Sjálfsagt þykir að skattleggja sjávarútveginn enn frekar þótt við blasi að rekstrarskilyrði hans versni og það verulega. Slíkt dregur auðvitað úr krafti atvinnulífsins og veikir um leið samfélagið okkar.
Nú fáum við þær gleðifréttir að fólki í hinum dreifðu byggðum fjölgi á ný, þökk sé ekki síst ferðaþjónustunni, atvinnugrein sem víða er orðin burðarstoð í samfélögum. Ferðaþjónustan á samt í vök að verjast en þá dettur mönnum helst í hug að skattleggja hana sérstaklega og það sem fyrst. Það mun fjöldi fyrirtækja ekki þola, skattheimtan stuðlar að því að kæfa greinina.“
Fjórir stjórnarmenn af fimm í Vinnslustöðinni staðfestu ársreikning félagsins og hann var samþykktur á aðalfundinum. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf. og stjórnarmaður í Vinnslustöðinni, staðfesti ekki ársreikning og fulltrúar Brims, sem á tæplega þriðjung hlutafjár í Vinnslustöðinni, greiddu atkvæði gegn reikningnum.
Guðmundur segist hafa óskað eftir skriflegum svörum frá endurskoðendum VSV um mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu félagsins en ekki fengið í tæka tíð til að geta samþykkt reikninginn.
Óháðir endurskoðendur Deloitte hf. árita samstæðureikning VSV án fyrirvara og segja í áritun sinni að hann gefi „glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2017, efnahag þess 31. desember 2017 og breytingu á handbæru fé á árinu 2017, í samræmi við lög um ársreikninga.“
Stjórn og varastjórn Vinnslustöðvarinnar voru endurkjörnar á aðalfundinum að undanskildu því að Magnús Helgi Árnason lögmaður var kjörinn í aðalstjórn í stað Guðmundar Kristjánssonar,“ segir í frétt frá Vinnslustöðinni.
Fjórir stjórnarmenn af fimm í Vinnslustöðinni staðfestu ársreikning félagsins og hann var samþykktur á aðalfundinum. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf. og stjórnarmaður í Vinnslustöðinni, staðfesti ekki ársreikning og fulltrúar Brims, sem á tæplega þriðjung hlutafjár í Vinnslustöðinni, greiddu atkvæði gegn reikningnum.
Guðmundur segist hafa óskað eftir skriflegum svörum frá endurskoðendum VSV um mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu félagsins en ekki fengið í tæka tíð til að geta samþykkt reikninginn.
Óháðir endurskoðendur Deloitte hf. árita samstæðureikning VSV án fyrirvara og segja í áritun sinni að hann gefi „glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2017, efnahag þess 31. desember 2017 og breytingu á handbæru fé á árinu 2017, í samræmi við lög um ársreikninga.“
Stjórn og varastjórn Vinnslustöðvarinnar voru endurkjörnar á aðalfundinum að undanskildu því að Magnús Helgi Árnason lögmaður var kjörinn í aðalstjórn í stað Guðmundar Kristjánssonar.