Bara beðið um svar

Deila:

„Fiskeldi í Ísafjarðardjúpi, mun leiða til stærstu samfélagslegu breytinga í yfir 50 ár, með uppbyggingu innviða, ný atvinnutækifæri, fólksfjölgun og eflingu smærri byggða. Það er ekki boðlegt að halda fólki í bið árum saman. Er þetta að koma, eða ekki? Þetta er bara ekki boðlegt.Það er ekki verið að biðja um ölmusu, ríkisaðstoð eða vinagreiða. Það er bara verið að biðja um svar.“

Þetta skrifar Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri í Bolungarvík í eftirfarandi færslu á facebook.

„Í dag hefur verið fjallað um álit Skipulagsstofnunar sem segir að stofnunin leggist gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Þetta eru ekki nýjar fréttir og ekkert sem kemur á óvart í þessu áliti stofnunarinnar.

Skipulagsstofnun er einungis að benda á þá staðreynd að Hafró hefur gefið út áhættumat sem gerir ráð fyrir að áhættan við laxeldi í sjó sé of mikil m.v. núverandi forsendur. Ef þessar forsendur breytast ekki, þá verður ekkert eldi.

Þetta er eins og að segja að það sé bannað að opna veitingahús, nema að það séu settar upp eldvarnir. Ef það eru engar eldvarnir, þá er áhættan of mikil og veitingastaðurinn opnar ekki. Þegar hinsvegar búið er að setja upp eldvarnir eins og eldvarnir eiga að vera. Þá má byrja að hræra í pottunum!

Á sama hátt er verið að bíða eftir að Hafrannsóknarstofnun vinni nýtt áhættumat sem byggir á þeim mótvægisaðgerðum sem fiskeldisfyrirtækin leggja til í samráði við ráðleggingar stofnunarinnar. Nýtt áhættumat, sem tekur inn í áhrif mótvægisaðgerða, mun sýna fram á allt aðra áhættu af fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Ásættanlega áhættu sem þýðir að ekkert verður því til fyrirstöðu að hefja eldi í Ísafjarðardjúpi.

Þetta er svona einfalt. Það sem hefur hins vegar ekki verið einfalt er tíminn. Það hefur tekið langan tíma að komast á þennan stað sem við erum á núna. Allt of langan tíma. Samfélagið við Djúp hefur beðið árum saman, án þess að fá trúverðugt svar um hvenær þessu leyfisferli lýkur og svar kemur.

Fiskeldi í Ísafjarðardjúpi, mun leiða til stærstu samfélagslegu breytinga í yfir 50 ár, með uppbyggingu innviða, ný atvinnutækifæri, fólksfjölgun og eflingu smærri byggða. Það er ekki boðlegt að halda fólki í bið árum saman. Er þetta að koma, eða ekki? Þetta er bara ekki boðlegt.

Það er ekki verið að biðja um ölmusu, ríkisaðstoð eða vinagreiða. Það er bara verið að biðja um svar.“

 

 

Deila: