Yfir 300 starfsmenn HB Granda á námskeiðum

Deila:

Nú þegar verkfall sjómanna hefur staðið yfir í bráðum tvo mánuði hefur tíminn m.a. verið notaður til námskeiðshalds fyrir starfsfólk í fiskvinnslu hjá HB Granda. Svo sem kunnugt er hefur félagið ekki sent fiskverkafólk heim og á atvinnuleysisbætur heldur hefur það haldið kauptryggingu í verkfallinu. Námskeiðin, sem um ræðir, eru tvenns konar, þ.e.a.s. fiskvinnslunámskeið og skyndihjálparnámskeið.

Fiskvinnslunámskeiðin eru hluti kjarasamninga en markmiðið með þeim er að auka þekkingu fiskverkafólks á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust, styrkja faglega hæfni og gera það hæfara til allra almennra fiskvinnslustarfa. Námskeiðin eru samtals 48 klukkustundir og taka til allra helstu þátta er varða starfið og starfsgreinina. Sú breyting hefur orðið á að fiskvinnslunámskeiðið nú kemur í stað 40 tíma námskeiðs með möguleika á 14 tíma viðbótarnámskeiði sem hvort um sig voru metin til tveggja launaflokka hækkunar. Þetta þýðir að nýliðar í fiskvinnslu, sem fengu laun samkvæmt 5. launaflokki, færast upp í 9. launaflokk eftir að hafa tekið nýja 48 tíma námskeiðið.

Að sögn Elva Jónu Gylfadóttir, starfsþróunarstjóra HB Granda, voru fiskvinnslunámskeiðin haldin í Reykjavík í lok síðasta árs og á Akranesi í lok nýliðins janúarmánaðar. Alls voru 14 manns sem luku námskeiðinu í Reykjavík og voru þeir m.a. frá Víetnam, Filipseyjum, Tælandi, Póllandi og Serbíu. Á Akranesi útskrifuðust 11 manns.

Skyndihjálparnámskeiðin hafa verið haldin í byrjun þessa árs nema á Vopnafirði en þar tóku 55 starfsmenn þátt á námskeiði sem haldið var í októbermánuði. Fjögur skynihjálparnámskeið hafa svo verið haldin í Norðurgarði í Reykjavík og þrjú á Akranesi. Alls sóttu 293 starfsmenn námskeiðin á þessum þremur starfsstöðvum HB Granda.
 

 

Deila: