Veiðidögum á grásleppu fjölgað í 32
Von er á reglugerð frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem fram kemur að heimilt verður að halda úti grásleppubátum í 32 daga en ekki 20 daga eins og upphaflega var tilkynnt.
Fyrstu grásleppubátarnir á þessari vertíð eru að ná 20. degi á sunnudaginn 8. apríl. Þeim er nú óhætt að halda áfram veiðum í 12 daga í viðbót. Síðasti dagur grásleppuvertíðarinnar hjá fyrstu bátunum er þá 20. apríl nk.
Hafrannsóknastofnun hefur lokið útreikningum úr mælingum rannsóknaleiðangurs sem fram fór í byrjun mars. Leggur stofnunin til að grásleppuafli fari ekki umfram 5.487 tonn, sem er 868 tonna minnkun milli ára.
Grásleppunefnd LS hefur fundað umniðurstöður á mælingum Hafró. Á fundinum var ákveðið að leggja til við ráðuneytið að veiðidagar á yfirstandandi grásleppuvertíð verði 40 sem er 6 dögum færra en endanleg ákvörðun varð á síðustu vertíð. Ákvörðun nefndarinnar er byggð á veiði undangenginna tveggja ára, þar sem þess er gætt að afli fari ekki umfram tillögu Hafrannsóknastofnunar.