Rúmlega 3.000 tonn á 13 tímum

Deila:

Beitir NK fyllti sig á loðnumiðunum í nótt og er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 3.000 tonn. Líklega er þetta stærsti loðnufarmur sem skip hefur borið að landi. Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra í morgun en þá var Beitir staddur út af Pétursey. Tómas sagði að Beitir kæmi til Neskaupstaðar upp úr miðnætti og þá yrði kannað hvort unnt yrði að vinna hrogn úr farminum. „Við fengum þennan afla í fjórum köstum á Grindavíkurleirnum og það tók okkur 13 tíma að fylla skipið. Það er mjög mikið af loðnu að sjá og ég hef aldrei tekið þátt í svona loðnuveiði. Svo er loðnan líka svo stór og falleg,“ sagði Tómas.

Ef farið er 20 ár aftur í tímann má sjá að þessi farmur Beitis jafngildir fullfermisförmum fimm minnstu loðnuskipanna sem þá voru í viðskiptum við Síldarvinnsluna. Ef hins vegar er farið 10 ár aftur í tímann jafngildir Beitisfarmurinn fullfermisförmum þriggja minnstu viðskiptaskipanna. Má á þessu sjá hver þróun loðnuflotans hefur verið síðustu áratugi.

Á myndinni er Beitir á miðunum í gær út af Grindavík. Ljósmynd Eyjólfur Vilbergsson.

 

Deila: