Aukin aflaverðmæti fyrir vestan

Deila:

Aflaverðmæti í nóvember síðastliðin dróst saman í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og Vesturlandi miðað við sama mánuð árið áður. Á Vestfjörðum jókst verðmætið um 9,5% og á Vesturlandi um 8,2%. Sé litið á landið allt er samdráttur í verðmæti landaðs afla 16,8% samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Þrátt fyrir þessa aukningu er aflaverðmæti minnst í þessum landshlutum. Á Vestfjörðum var landað afla að verðmæti 681 milljón króna í nóvember og 537 milljónir á Vesturlandi. Aflaverðmæti á Norðurlandi vestra er einnig lágt, 572 milljarðar og er þar mesti samdrátturinn eða 36,5%.

Höfuðborgarsvæðið ber höfuð og herðar yfir önnur landsvæði þegar litið er á verðmæti landaðs fiskafla að venju. Þar var landað fiski að verðmæti 2,4 milljarðar króna í nóvember, sem þó er samdráttur um 17,1%, örlitlu meira en landsmeðaltalið.

Suðurnesin koma næst með 1,9 milljarða í aflaverðmæti og er það samdráttur um tæpan fjórðung. Þar á eftir kemur Norðurland eystra með 1,5 milljarða króna. Þar er samdrátturinn 8%. Á Austurlandi var verðmæti landaðs afla 1,2 milljarðar króna, sem er 29,1% samdráttur og á Suðurlandi var aflaverðmætið rúmlega einn milljarður króna, sem er nánast það sama og í nóvember árið áður.

Deila: