Seiðaeldi hefur ekki áhrif á hverastrýtur

Deila:

Fyrirhuguð sjógönguseiðastöð við Þorvaldsdalsárós á Árskógssandi mun ekki hafa neikvæð áhrif á friðlýstar hverastrýtur í Eyjafirði, samkvæmt mati Umhverfisstofnunar. Því er ekki þörf á umhverfismati fyrir framkvæmdina. Frá þessu er sagt á ruv.is

Í febrúar sögðust fulltrúar Umhverfisstofnunar ekki geta sagt til um hvort þörf væri fyrir umhverfismat, þar sem ekki væri fjallað um möguleg áhrif á strýturnar vegna losunar lífrænna efna.

Í svari frá Laxós, sem ætlar að reisa seiðaeldið, segir að sérstök sía verði notuð til að hreinsa lífræn efni úr frárennsli. Þar komu einnig fram útreikningar sem sýna að losun næringarefna frá rekstrinum muni hafa mjög lítil áhrif á næringarefni í Eyjafirði, sem Umhverfisstofnun féllst á. Því er ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur þó fram, að eftir að fyrri umsögnin var birt, hafi íbúar lýst áhyggjum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Svæðið sem seiðaeldið á að rísa á sé aðeins í 40 metra fjarlægð frá íbúðarhúsum, og þar sé nú ósnortnar grónar áreyrar sem njóti hverfisverndar sem útivistarsvæði. Vegna þess áskilur Umhverfisstofnun sér rétt til þess  að gera frekari athugasemdir við skipulagstillögu, þegar þar kemur að.

 

 

Deila: