Síldarminjasafnið hlýtur umhverfisverðlaun

Deila:

Síldarminjasafnið hlaut Um­hverf­is­verðlaun Ferðamála­stofu árið 2017 fyr­ir fegr­un um­hverf­is og bætt aðgengi. Anita Elefsen safnstjóri og Örlygur Kristfinnsson forveri hennar tóku á móti verðlaununum á Ferðamálaþingi í Hörpu. Frá þessu er sagt á heimasíðu safnsins.

Síldarminjasafnið umhverfisverdlaun2017-800

Anita sagði það vera mikinn heiður að taka á móti verðlaununum, en gagngerar endurbætur voru gerðar á umhverfi safnsins á árunum 2012 – 2013, með rausnarlegum stuðningi frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Upphaf framkvæmdanna má rekja til þess að haustið 2011 varð mikið rask á safnsvæðinu er Vegagerðin færði veginn við Snorragötu töluvert austar en hann hafði verið. Í kjölfarið varð ytri ásýnd safnsins verri en áður og veruleg þörf á endurbótum. Segja má að í raun hafi framkvæmdir Vegagerðarinnar gefið forsvarsmönnum safnsins langþráð tækifæri til þess að ráðast í gagngerar endurbætur á safnsvæðinu, bæta aðgengi og fegra umhverfið. Örlygur skipulagði og hannaði svæðið og hafist var handa við smíði svokallaðra bryggjupalla sem þjóna tilgangi göngustíga á milli safnhúsa, lóðin var snyrt svo um munaði og hönnuð lýsing á svæðið sem byggði að miklu leyti á endursmíði ljósastaura eins og þeir voru á siglfirsku bryggjunum á fyrri hluta síðustu aldar.

Þegar framkvæmdum lauk síðla árs 2013 hafði svæðið sannarlega tekið stakkaskiptum og skapar í dag heildstæða mynd og veitir gott aðgengi þeim rúmlega 25.000 gestum sem heimsækja safnið árlega.

Það var mat dóm­nefnd­ar að Síld­ar­minja­safnið væri gott dæmi um frum­kvöðlavinnu, þar sem menn­ing­ar- og at­vinnu­saga bæj­ar­fé­lags hef­ur orðið að aðdrátt­ar­afli fyr­ir ferðafólk og verið mik­il­væg­ur liður í að end­ur­nýja bæj­ar­brag­inn.

 

Deila: