Argentískur ljósmyndari um borð í Beiti
Guadalupe Laiz er argentískur ljósmyndari sem fór í veiðiferð með Beiti NK um síðustu helgi. Haldið var til veiða á laugardagsmorgni og komið til hafnar með 1.200 tonn af síld á sunnudagskvöldi. Guadalupe hefur aldrei áður farið á skipi út á rúmsjó og aldrei áður stigið fæti um borð í fiskiskip þannig að veiðiferðin með Beiti var henni ögrandi upplifun. Hún tók margar frábærar ljósmyndir í ferðinni og fylgir sýnishorn af þeim með þessum pistli af heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Guadalupe er fædd og uppalin í borg sem heitir Mar del Plata og er hún ekki langt frá höfuðborginni Buenos Aires. Hún menntaði sig í þýðingarfræðum en að því námi loknu fluttist hún til Colorado í Bandaríkjunum og hóf nám í ljósmyndun. Frá því að ljósmyndanáminu lauk hefur hún starfað sjálfstætt sem ljósmyndari.
Guadalupe kom fyrst til Íslands fyrir þremur árum og varð ástfangin af landinu. Hún heillaðist af íslenskri náttúru og íslenski hesturinn á hug hennar að miklu leyti. Hún vinnur nú að ljósmyndabók um íslenska hestinn. Guadalupe er nú á Íslandi í þriðja sinn og kom til Neskaupstaðar á vegum Art Attack verkefnisins. „Fyrir mig hefur verið einstaklega lærdómsríkt og ánægjulegt að dvelja í Neskaupstað. Fólk hefur sýnt mér svo mikla hlýju og það hefur einnig sýnt því áhuga sem ég er að fást við. Mér hefur fundist frá upphafi að ég sé sérstaklega velkomin hér,“ segir Guadalupe.
Sjóferðin á Beiti er eitt af því áhugaverðasta sem argentíski ljósmyndarinn hefur tekið sér fyrir hendur. „Ég mun aldrei gleyma þessari sjóferð. Hún er merk lífsreynsla fyrir mig. Ég hef aldrei fengist við jafn ögrandi verkefni og allt um borð í skipinu var mér algjörlega framandi. Í upphafi sjóferðarinnar var ég mjög sjóveik. Ég hélt um tíma að ég yrði ófær um að taka myndir um borð en hægt og bítandi leið mér skár.
Áhöfnin tók afar vel á móti mér en í fyrstu voru sjómennirnir hljóðir. Það átti hins vegar eftir að breytast og það var virkilega gaman að spjalla við þá. Ég fylgdist með störfum áhafnarinnar um borð og myndaði. Það er svo sannarlega hægt að dást að þessum mönnum. Þeir gengu svo fumlaust að öllum sínum störfum og leystu öll verk svo fljótt og vel af hendi að það er aðdáunarvert. Það var ævintýri fyrir mig að fá að vera innan um þá og mynda. Skipið er líka alveg stórkostlegt. Það er svo stórt og kraftmikið og mér fannst ég örugg um borð allan tímann. Aðbúnaðurinn um borð er líka svo ótrúlega góður. Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt og er þakklát fyrir að hafa fengið að fara þessa ferð,“ sagði Guadalupe Laiz.
Guadalupe er nú orðin vel sjóuð og er rætt um að hún fari jafnvel í aðra sjóferð með Síldarvinnsluskipi.
Þeim sem vilja skoða myndir Guadelupe er bent á heimasíðuna hennar www.guadalopelaiz.com.