Slakur vöxtur og viðgangur í Norðursjó

Deila:

Nýjar rannsóknir Dana sýna að vöxtur og viðgangur smærri fisktegunda í Norðursjó er slakur og hefur verið á niðurleið síðan á síðasta áratug síðustu aldar. Fiskurinn er styttri, rýrari og nýliðun er slakari nú en þá.

Þetta eru til dæmis fiskar eins og brislingur (tannsíld), sandsíli síld og spærlingur. Þessar tegundir eru í lykilhlutverki í fæðukeðju og lífríki Norðursjávarins. Þegar illa árar hjá þeim raskar það allri fæðukeðjunni. Þetta segir Mikael van Deurs, fiskifræðingur við hafrannsóknadeild Tækniháskóla Danmerkur.

Nýju rannsóknirnar sýna að hnignun þessara smáfiski hófst í kringum 1993 og síðan þá hefur að sögn Deurs sjálfbær veiðigeta helmingast. Það þýðir að nú geta sjómenn aðeins veitt helming þess, sem þeir gátu áður, eigi veiðarnar að vera sjálfbærar.

Þessar tegundir eru að miklu leyti veiddar til vinnslu á mjöli og lýsi og eru þar miklar fjárhæðir í húfi. En hrunið í þessum fiskistofnum stafar einnig af  breytingum á hafstraumum og hitastigi í Norðursjónum. Áður hafa fiskifræðingar bent á að loftlagsbreytingarnar í Norðursjónum hafi leitt til samdráttar í framaleiðslu á dýrasvifi, sem er aðalfæða síldar, brislings, sandsílis og fleiri slíkra tegunda og nú hefur verið sýnt fram á þetta samhengi. Lagðar hafa verið fram sannanir um að miklar breytingar hafi átt sér stað í lífríki Norðursjávarins, þær byggja á upplýsingum úr rannsóknum og frá sjómönnum í fjóra áratugi.

Niðurstaðan er að fiskurinn er styttri. Lengdin er mæld á tilteknum aldri fiskanna og hafa allar tegundir styst nema brislingurinn. Styttingin nemur um 5%.
Fiskurinn er léttari. Þessar fisktegundir vega að meðaltali 13% minna en á miðjum síðasta áratug síðustu aldar. Það er lesið út úr sýnum, sem sjómönnum er skylt að afhenda til rannsókna.
Nýliðun er lakari. Rannsóknirnar gefa til kynna að nýliðun hafi fallið um 28% en niðurstöðurnar byggja meðal annars á upplýsingum frá Alþjóða hafrannsóknaráðinu. ICES.
Niðurstaðan byggir bæði á gögnum úr rannsóknum og upplýsingum frá sjómönnum. Hvort tveggja bendi í sömu átt. Margar fiskitegundir í Norðursjó vaxa hægar og gefa af sér færri afkomendur.

Deila: