Undarleg uppákoma

Deila:

„Það eru mikil vonbrigði að missa félagsmenn og leitt að Hrollaugur, félag smábátaeigenda á Höfn í Hornafirði, sjá ekki samleið með baráttumálum LS. Ekki fylgdi önnur skýring á úrsögninni en að félagið hygðist sjálft sinna hagsmunabaráttu félagsmanna sinna.“ Svo segir í pistli frá frá formanni LS vegna tilkynningar Vigfúsar Ásbjörnssonar formanns Hrollaugs um úrsögn félagsins úr Landssambandi smábátaeigenda (LS) og hans sjálfs úr stjórn LS. Þar segir ennfremur:

„Frá því strandveiðar hófust 2009 hefur aflinn í kerfinu aukist úr tæpum 4.000 tonnum í rúm 11.200 tonn. Þá er ufsi nú, í fyrsta sinn, utan þess afla sem ætlað er í kerfið.  Aukningin frá því í á síðasta fiskveiðiári er um 25%.  Ég bendi mönnum á að velta því fyrir sér hvort líklegt sé að sú aukning og aukningin frá upphafi sé öðru að þakka en baráttu LS.

Hagsmunir heildarinnar munu ávallt verða hafðir að leiðarljósi í vinnu LS og þau álit og umsagnir sem frá LS fara hafa og verða ávallt borin undir stjórn LS.

Formaður Hrollaugs, sem setið hefur í stjórn LS frá árinu 2016, kaus í þeirri baráttu sem staðið hefur yfir fyrir bætt strandveiðikerfi, að ráðast með mjög óvægnum hætti gagnvart helsta talsmanni smábátaútgerðarinnar á Alþingi, sem jafnframt er formaður atvinnuveganefndar.  Persónulegar árásir hefur LS aldrei stundað, þótt oft hafi verið tekist harkalega á.

Engin í stjórn LS hefur tekið undir þessi vinnubrögð Vigfúsar og hafa stjórnarmenn lýst því yfir að þetta sé hvorki honum, né Hrollaugi til sóma og hvað þá líklegt til árangurs í þeirri réttindabaráttu sem LS stendur stöðugt í.  Hann hefur fengið þessi skilaboð og telur sér ekki lengur vært í stjórn LS.  Á síðasta stjórnarfundinum sem hann sat gerði hann engar athugasemdir við þá yfirlýsingu sem samin var og samþykkt á fundinum og birt í framhaldi á vefsíðu Landssambandsins og varðaði stuðning við frumvarp atvinnuveganefndar og mótmæli við ákvæði um heimild Fiskistofu til að stöðva veiðar.

Í rúmlega 30 ára sögu LS hefur aðildarfélag aldrei sagt úr LS. Það er óneitanlega athyglisvert að á stofnári LS (1985) var smábátaútgerð nánast engin á Höfn í Hornafirði.  Hún óx og dafnaði strax á næstu árum m.a. vegna baráttu LS, sem skilaði svo sannarlega árangri.  Smábátaútgerð varð að marktækum þætti í lífi og starfi bæjarins og árið 1989 var Hrollaugur stofnaður. Það er því undarleg uppákoma að einmitt á þessum stað séu menn helst á því að best sé að segja skilið við þau samtök sem ruddu brautina.

Það er nauðsynlegt að gera grein fyrir stöðu strandveiðiútgerða á Höfn. Á síðasta ári stunduðu þar 16 útgerðir strandveiðar. Meðalafli þeirra 2017 var 30,9 tonn sem er sá hæsti á landinu. Sú höfn sem komst næst var Bakkafjörður með 22,3 tonn.   Aflinn á Höfn er tæplega tvöfaldur meðalafli á A svæði og rúmlega tvöfaldur meðalafli á D svæðinu, sem Höfn er á.  Meðalaflinn á Hornafirði var tæpum 2 tonnum hærri en aflahæsti báturinn var með á A svæðinu árið 2017.

Það er von mín að þegar komandi strandveiðitímabili lýkur, muni niðurstaðan af þeirri tilraun sem gerð er í sumar verða sem flestum til hagsbóta og að atvinnuveganefnd nýti niðurstöðuna til þess að sætta sem flest sjónarmið fyrir vertíðina 2019. LS mun áfram vinna að stefnu sinni um að strandveiðar verði heimilar 4 daga á mánuði 4 mánuði á ári og til þess að það náist vonast ég eftir samstöðu og að allir smábátasjómenn sjái hag sinn bestan í að vera félagar í LS.

Hrollaugsmenn eru svo sannarlega velkomnir í Landssambandi smábátaeigenda.

Sundrung í röðum smábátaeigenda hefur á stundum reynst félaginu erfið. Það hefur enda verið markmið andstæðinga smábátaútgerðar allt frá stofnun LS að gera sitt besta til efna til slíks óvinafagnaðar.

Staðreyndin er sú að þegar smábátaeigendur hafa staðið saman sem einn maður hafa þeir landað sínum stærstu sigrum.“

 

 

Deila: