Engiferleginn lax með volgu mangósalati

Deila:

Laxinn klikkar ekki. Hann er alltaf jafngóður og fjölbreytnin í matreiðslu er nánast endalaust. Það er svo mikill kostur að vegna blómlegs laxeldis á Íslandi er hægt að fá ferskan lax alla daga ársins á viðráðanlegu verði. Í ofanálag er laxinn eitthvert hollasta fiskmeti sem fáanlegt er vegna mikils innhalds fjölómettaðra fitusýra Omega3. Þessa fínu uppskrift fundum við á gottimatinn.is en þar er að finna mikið af góðum uppskriftum.

Hráefni:
700 g lax
sesamfræ

Kryddlögur (marinering) fyrir lax:
½ dl sojasósa
30 ml limesafi (1-2 lime)
2 tsk rifið engifer
1 tsk sambal olek

Salat:
1 stk mangó, skorið í bita
½ stk rauð, gul eða græn paprika, skorin smátt
1 stk rauðlaukur, skorinn smátt
steinselja, smátt skorin

Meðlæti:
hrísgrjón, setjið túrmerik í vatnið til að fá gulan lit á grjónin
sýrður rjómi

Aðferð:

Þessi dásamlegi og fljótlegi réttur dugar fyrir 3-4.

Stillið hitann á ofninum á 225°C.

Hrærið saman kryddlöginn. Setjið öll hráefni í skál, skerið laxinn í bita og setjið í skálina. Látið liggja í rúmlega 30 mínútur.

Skerið mangó, papriku, lauk og steinselju smátt og setjið til hliðar.

Setjið fiskinn í eldfast mót ásamt sósunni og stráið sesamfræ yfir. Bakið fiskinn í um 15 mínútur.

Hitið olíu á pönnu og steikið ávexti og grænmeti í nokkrar mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum, sýrðum rjóma og grænu salati.

 

Deila: