Örfirisey með mestan kvóta innan norsku lögsögunnar

Deila:

Heimildir íslenskra skipa til veiða á þorski innan lögsögu Norðmanna í Barentshafi á þessu ári eru 5.662 tonn miðað við slægðan afla. Auk þess er heimilt að vera með allt að 30% meðafla af öðrum tegundum. Í fyrra voru þessar heimildir 6.882 tonn og haf þær því dregist saman um 1.200 tonn vegna minni heildarkvóta á þorski í Barentshafi.

Fiskistofa hefur ekki gefið út heimildir til veiða innan lögsögu Rússlands. Þar mátti veiða í fyrra 4.300 tonn, en tæplega 1.100 tonn af því náðust ekki. Meðal annars vegna bilunar Örfiriseyjar, sem stundaði veiðar þar norðurfrá.

Það fiskiskip sem mestar heimildir hefur nú innan norsku lögsögunnar er Örfirisey RE með  1.270 tonn eftir millifærslur frá öðrum HB Grandaskipum. Örfirisey er þannig að taka við hlutverki Þerneyjar sem áður var með mestu heimildirnar, en hún hefur nú verið seld úr landi. Næsta skip á eftir Örfirisey er Arnar HU með 692 tonn og síðan Björgvin EA með 680 tonn.

Alls fá 15 skip úthlutað heimildum til veiða innan norsku lögsögunnar í Barentshafi, en aðeins 8 skip stunduðu veiðar þar í fyrra. Það er því ljóst að töluverðar millifærslur eiga enn eftir að eiga sér stað og gæti það breytt eitthvað röð efstu skipa.

Í fyrra var Þerney með mestan þorskafla íslensku skipanna úr norsku lögsögunni, 1.556 tonn og næst kom Kleifaberg RE með 1.192 tonn.

Deila: