Mestu þorskverðmæti sögunnar

Deila:

Fluttar voru út þorskafurðir fyrir 141 milljarð króna í fyrra  sem er met í sögunni í verðmætasköpun úr þorskaflanum. Verðmæti þorskafurða námu 132 milljörðum árið 2021, reiknað á gengi hvors árs. Aukningin varð því 7% milli ára en 10% sé leiðrétt fyrir gengi krónunnar.
Í tonnum talið dróst útflutingur hins vegar saman um tæp10% og fór úr 141 þúsund tonnum árið 2021 í 128 þúsund tonn í fyrra. „Verðmæti hvers kílós, hvort sem miðað er við afla eða útflutning, var því ríflega fimmtungi hærra í fyrra en árið 2021, mælt í erlendri mynt. Af þessu er ljóst að íslenskum sjávarútvegi tókst vel upp á árinu í framleiðslu og útflutningi á þorskafurðum,“ segir á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.

Miklar verðhækkanir
Í umfjölluninni segir að ljóst sé að sú mikla hækkun sem varð á fiskverði í fyrra hafi leikið stórt hlutverk í þesssari þróun í útflutningsverðmætinu.
„Hækkunin kom þó vissulega ekki öll til af hinu góða, enda má rekja hana að hluta til innrásar Rússa í Úkraínu. Fyrir innrásina hafði fiskverð farið hækkandi í takti við batnandi aðstæður á mörkuðum og áhrifin af COVID-19 minnkuðu. Óvissa sem leiddi af stríðinu og viðskiptaþvinganir sem Vesturlöndin gripu til gegn Rússlandi, stuðluðu að frekari verðhækkunum.
Verðþróunin var þó nokkuð misjöfn eftir einstaka afurðaflokkum þorskafurða enda eru viðskiptalöndin mörg og ólík þar sem ástand á mörkuðum er mismunandi. Verðvísitala sjófrystra afurða hækkaði áberandi mest, eða um 46% á milli ára á föstu gengi. Eins var dágóð hækkun á verðvísitölu fyrir ferskan þorsk (18%) og landfrystan (14%). Minnsta hækkunin var á verðvísitölu fyrir saltaðan þorsk, eða rúm 11% á föstu gengi. Verðvísitala botnfiskafurða í heild hækkaði um tæp 24% í erlendri mynt á milli ára. Hækkanirnar voru jákvæðar fyrir íslenskt hagkerfi. Einnig kom það sér vel að þær komu á sama tíma og samdráttur varð í þorskkvóta. Hátt verð á íslenskum sjávarafurðum hefur jákvæð áhrif á viðskiptakjör og ekki hefur veitt af að afla meiri útflutningstekna miðað við þann halla sem er nú um stundir á utanríkisviðskiptum Íslendinga.“

Deila: