Flytur erindi um marflær

Deila:

Fimmtudaginn 24. mars kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. Ragnhildur Guðmundsdóttir, sérfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands flytur erindið: Grunnvatnsmarflóin Crangonyx islandicus og búsvæði hennar/Crangonyx islandicus and the subsurface habitat.

Fyrirlestur og glærur verða á ensku.

Erindi verður streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar, https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA

Ragnhildur Guðmundsdóttir

Ágrip
Íslandsmarflóin, Crangonyx islandicus, er grunnvatnsmarflóartegund sem finnst eingöngu á Íslandi. Erfðarannsóknir hafa sýnt að hún hefur aðgreinst hér á landi í um 4,8 milljónir ára sem bendir til þess að hún hafi lifað af undir ísaldarjökli en á þessu tímabili hefur Ísland endurtekið verið þakið jöklum. Líklega hefur tegundin verið á Íslandi allt frá því að forveri Íslands varð að eyju, þegar landbrúin til Grænlands rofnaði fyrir um 15 milljónum ára. Núverandi þekkt útbreiðsla tegundarinnar er í grunnvatni hraunalinda á flekaskilum landsins. Þessar lindir eru eins konar náttúrulegur gluggi inn í grunnvatnskerfið en þar má finna vistkerfi á mótum grunnvatns, yfirborðsvatns og yfirliggjandi jarðvegs. Í þessari ritgerð er örverusamfélag þessa svæðis og marflónna skoðað, bæði til að kanna frekara líf í þessu lítt þekkta kerfi og til að skoða þá ferla sem hafa mótað samfélögin. Niðurstöðurnar benda til þess að á marflónum finnist nokkrar tegundir af bifdýrum og bakteríum sem ekki finnast í uppsprettunum nema að litlu leyti. Bæði slembiferlar og umhverfisþættir reyndust stýra tegundasamsetningunni fyrir örveruhópana í uppsprettunum. Þættir eins og sýrustig, hitastig, tilvist fiska og landfræðileg staðsetning mótuðu bakteríusamfélögin á meðan hitastig og far réðu mestu um samsetningu bifdýrasamfélaganna. Meðal bakteríanna var að finna ýmsa efnatillífandi hópa sem bendir til þess að frumframleiðni á sér stað í grunnvatnskerfinu. Það gæti því mögulega útskýrt hvernig marflærnar gátu lifað af jökulskeið í grunnvatni landsins.

Deila: