Hyggur á hvalveiðar í sumar

Deila:

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., hyggur á hvalveiðar í sumar eftir fjögurra ára hlé frá veiðum.

150 starfa við veiðar og vinnslu

Ekki náðist í Kristján við vinnslu fréttarinnar en hann segir í samtali við Morgunblaðið að hann reikni með að veiðarnar hefjist í júní og standi fram í september eftir því sem veður leyfir. Reiknað er með að um 150 manns muni starfa við veiðar og vinnslu. Hvalur hf. fékk ótímabundið leyfi til vinnslu hvalaafurða í fyrra.  Kristján segir jafnframt að ástæða þess að ekkert hefur verið veitt síðan 2018 sé áralöng togstreita fyrirtækisins við Matvælastofnun. 

Heimilt er að veiða yfir 200 langreyðar og yfir 200 hrefnur hér við land á ári. Árið 2018 voru hér veiddar 146 langreyðar og sex hrefnur.

Ólíklegt að veiðiheimildir verði framlengdar

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í febrúar fátt styðja áframhaldandi hvalveiðar. Núverandi veiðiheimildir renna út á næsta ári og að öllu óbreyttu verður engin hvalveiði heimil frá árinu 2024, sagði Svandís. Til að framlengja heimildirnar þyrfti að sýna fram á efnahagslega réttlætingu fyrir þeim. Óumdeilt væri að veiðarnar hafi haft litla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðarbúið síðustu árin, því engin stórhveli hafi verið veidd. 
Frétt af ruv.is

Deila: