Grindhvalir á grunnsævi kalla á rannsóknir

Deila:

Tíðar komur grindhvala upp að ströndum landsins síðustu ár vekja margar spurningar og benda til þess að einhverjar breytingar séu að verða á atferli þessara djúpsjávarhvala, sem vert er að rannsaka nánar. Þetta segir Edda Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur við Háskóla Íslands í samtali við ruv.is.

Allar björgunarsveitir á Reykjanesi voru kallaðar út á tíunda tímanum í gærkvöld vegna grindhvalavöðu sem synti inn í Keflavíkurhöfn síðdegis í gær. Ætlunin var að stugga hvölunum á haf út, en þegar fyrsti bátur björgunarsveitarmanna renndi inn í höfnina voru þeir á bak og burt. Skammt er síðan um fimmtíu hrefnuhræ fundust á Löngufjörum á Snæfællsnesi, og ljóst að hvalirnir hafa gengið þar á land og strandað fyrir um mánuði eða svo.

Óvenjuleg hegðun djúpsjávarhvala

Edda Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur við Háskóla Íslands, segir þessa atburði vekja upp fjölmargar spurningar, enda um óvenjulegt atferli að ræða.
„Þarna eru djúpsjávarhvalir farnir að sjást títt við ströndina um hásumarið, síðustu tvö ár allavega, og það bendir til þess að það séu einhverjar breytingar í gangi, sem hafa áhrif á hegðun hvalanna.”

Ekki þeirra náttúrulega umhverfi

Edda segir hvalina stofna sér í hættu með því að koma svo nærri landi, vegna þess að við strandlínuna séu  aðstæður oft þannig að þeir eigi erfiðara með að nýta sér bergmálspúlsana sem þeir nota til að ná áttum í djúpsjónum.

„Svo eru ýmsir aðrir umhverfisþættir sem geta haft slæm áhrif, eins og til dæmis sterkir sjávarfallastraumar,” segir Edda. Þeir syndi að ströndinni á flóði en síðan geti fallið hratt út, sem verður til þess að hvalirnir lendi í grunnsævi sem ekki er þeirra náttúrulega umhverfi. Þetta geti endað með strandi þeirra, eins og gerðist á Löngufjörum á dögunum.

Vísbending um breytta hegðun og fæðuval

Edda segir þetta verulega áhugavert og vísbendingu um einhverja breytingu í hegðun og útbreiðslu grindhvala, sem við getum átt von á að verða oftar vitni að hér eftir en hingað til. Of snemmt sé hins vegar að fullyrða nokkuð um það, hvers konar breytingar þetta séu eða hvers vegna þær hafi orðið, þar sem ekkert er búið að rannsaka þetta enn að neinu ráði.

„Við getum svo sem sett fram líklegar kenningar, og það er sem sagt fæðan, sem mjög sennilega stýrir þarna för. Það er möguleiki á að þeir séu að breyta fæðuvali, eða þá að þeir séu orðnir meiri tækifærissinnar, en við vitum að grindhvalurinn á það til að sækja sér makríl, en það er ekki hans helsta fæða. Um 90 prósent af fæðu hans er smokkfiskur, en við vitum að þarna í Keflavíkurhöfn hefur verið töluvert af makríl og það gæti verið það sem þeir eru að sækja í,” segir Edda og bendir á, að breytingar á hitastigi sjávar hafi bein áhrif á útbreiðslu fæðunnar í sjónum.

Kallar á rannsóknir

Mögulega sé breytt hegðun grindhvala því sterk vísbending um breytingu á útbreiðslu einhverrar fæðu. „Og við þurfum svo að skoða betur hvaða fæða þetta er sem þeir eru að eltast við og líka hvað annað það gæti verið, sem ýtir undir að þeir koma svona oft upp að ströndum landsins á þessum árstíma síðustu árin.”

Edda segir að þótt hvalirnir hafi synt út úr Keflavíkurhöfn í gærkvöld geti enn brugðið til beggja vona með framtíð þeirra. „Það eru minni líkur á að illa fari þar sem þeir eru komnir út, en það eru alveg líkur á að annað hvort þessi torfa eða einhver önnur komi aftur þarna inn, ef hvalirnir eru að leita að því sama. Ég yrði ekki hissa.”
 

Deila: