Góður gangur á strandveiðum

Deila:

Strandveiðar hafa gengið vel í júlí. Eftir 16 veiðidaga  er aflinn orðinn 3.132 tonn, sem er ríflega 400 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Það skýrist meðal annars af fjölgun báta um 80 og fjölgun róðra um meira en 600. Þar ræður miklu hagstætt veðurfar.

Aflinn hefur aukist á öllum veiðisvæðum, en mestur er hann að vanda á svæði A, enda langflestir bátar gerðir þaðan út, eða 227 með löndun nú. Aflinn á svæðinu nú er 1.258 tonn á móti 1.186 tonnum á sama tíma í fyrra. Róðrum hefur fjölgað verulega.

Á svæði B, er aflinn orðinn 738 tonn á móti 557 tonnum í fyrra. Róðrar nú eru 1.095, en voru 842 tonn í fyrra. 130 bátar hafa landað afla á tímabilinu. Á svæði C er aflinn 679 tonn, sem er 53 tonnum meira en í fyrra. Bátarnir eru 119 og landanir 960. Á svæði D er aflinn 457 tonn, sem er 90 tonnum meira en í fyrra. Bátarnir eru 136 og hafa þeir landað 733 sinnum.

Afli strandveiðibáta frá upphafi tímabilsins í ár er nú 7.979 tonn, sem er 842 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Það er um 65% af leyfilegum heildarafla í sumar, en tímabilinu lýkur í lok ágúst.

Deila: