Eins og að pissa í skóinn
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, segir að lagasetning á verkfall sjómanna yrði eins og „pissa í skóinn.“ Hún segir skrýtið að heyra stjórnmálamenn kalla eftir allskonar viðbrögðum og hún hvetur deiluaðila til að hverfa frá þeim hugsunarhætti að ríkið komi að deilunni með sértækum aðgerðum. Hún biðlaði til þeirra að fara inn í vikuna með það í huga að semja. Þetta sagði hún í viðtali í þættinum silfrinu á Rás 2 í gær.
Verkfall sjómanna hefur nú staðið í tvo mánuði og í vikunni kynnti Þorgerður Katrín skýrslu um áhrif þess – hún sýndi að verkfallið tefur útgreiðslu veiðigjalda, sveitarfélögin hafi tapað milljarði í tekjum og að útflutningstekjur hafi dregist saman um allt að fimm milljörðum.
Þorgerður sagði alvarlegt að sjá áhrifin sem verkfallið hefði á hinar dreifðu byggðir og hvernig það kæmi niður á þeim sveitarfélögum. Hún sagði jafnframt skrýtið að heyra stjórnmálamenn, sem hefðu jafnframt átt sæti í ríkisstjórn, að kalla eftir allskonar viðbrögðum. „Ráðherra er stöðugt í sambandi við deiluaðila og það er ekki heppilegt að þau samtöl rati í fjölmiðla. Sjómenn vilja ekki lagasetningu og með lagasetningu á verkfallið erum við ekki að leysa nein verkefni heldur pissa í skóinn.“
Þorgerður segir ekkert geta réttlætt sértækar skattaaðgerðir inn í þetta verkfall – þvert á móti sé einstakt tækifæri til að gera skattkerfið einfaldara. Henni finnst öfugsnúið að tala um að útgerðir eigi að greiða sanngjarnt verð fyrir auðlindina en krefjast svo þess að ríkið styrki sjávarútvegin með skattbreytingu. „Ef útgerðin, SFS og stjórnmálamenn eru að krefjast þess að ríkið komi að því að styrkja sjávarútveginn í formi skattaafsláttar þá er það ný nálgun af hálfu útgerðarinnar.“
Þorgerður biðlaði til deiluaðila að fara inn í vikuna með það í huga að semja og binda enda á verkfallið. „Ég hvet menn til að hverfa frá þeim hugsunarhætti að ríkið komi að deilunni með sértækum aðgerðum.“