Allt að 11 uppboð á mínútu

Deila:

Nýtt uppboðskerfi hefur verið tekið í notkun hjá Reiknistofu fiskmarkaða. Helstu kostir þess eru að það er á netinu og því geta kaupendur farið inn á það með tengingu við RSF hvar sem er í heiminum. Nýja kerfið er einnig hraðvirka en það gamla og getur annað allt að 11 uppboðum á mínútu.

„Kerfið hefur verið í smíðum undanfarin tvö ár. Við vorum með annað kerfi sem við höfum notað frá 2003. Það var orðið gamalt og ekki hægt að þróa það áfram eða bæta og nær enginn kunni á það lengur. Hefði það bilað hefðum við jafnvel verið í vandræðum. Við ákváðum því að smíða nýtt kerfi og hefur það gengið mjög vel,“ segir Eyjólfur Þór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri RSF í samtali við kvotinn.is

„Mesti munurinn frá því sem var er að hitt kerfið byggðist á forriti sem menn þurftu að hlaða niður í tölvurnar sínar og þurfti jafnvel smá lagni við að opna það. Þetta nýja kerfi er bara á vefnum. Kaupendur fara einfaldlega inn á heimasíðu RSF og skrá sig þar og þá eru menn tilbúnir í kaup. Þetta er miklu einfaldara, þægilegra og aðgengilegra. Kerfið var keyrt í nokkra daga í síðustu viku og það gekk mjög vel. Þó þetta sé ekki mjög frábrugðið í útliti þá verður svona í byrjum smá óöryggi bæði hjá okkur og kaupendum, en tæknilega hefur þetta gengið alveg fullkomlega.

Mönnum fannst við vera svolítið brattir að ætla að fara af stað með nýtt kerfi á háannatíma á vetrarvertíð. Það má því kannski segja að það hafi komið sér vel að framboð er lítið vegna verkfalls sjómanna, að minnsta kosti fyrir kaupendur, en fyrir okkur hefði það sennilega ekki skipt miklu máli,“ segir Eyjólfur Þór Guðlaugsson.

Eyjólfur segir að í janúar hafi farið 40% minna magn um markaðina en í fyrra og líklega sé samdrátturinn hlutfallslega enn meiri það sem af er febrúar.

Á myndinni er nýja kerfið kynnt. Ellert Eiríksson, stjórnarformaður RSF, Eyjólfur Þór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri og Erlingur Þorsteinsson, yfirmaður tölvusviðs RSF.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: