Kolmunni og síld til Neskaupstaðar
Bjarni Ólafsson AK kom síðastliðna nótt með um 930 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar og nú síðdegis kom Börkur NK með rúmlega 1.100 tonn af síld.
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að kolmunnaveiðin sé heldur treg. „Við vorum að veiðum djúpt út af Norðfjarðardýpi, um 60-70 mílur frá landi. Við vorum fimm daga að veiðum og var aflinn tekinn í fimm holum. Þegar skyggja tekur hverfur kolmunninn alveg og því er látið reka frá klukkan hálf sex síðdegis til klukkan sjö á morgnana og einungis togað á daginn,“ segir Runólfur.
Bjarni Ólafsson mun halda til veiða á ný í kvöld að lokinni löndun.
Börkur var að síldveiðum í færeysku lögsögunni og fékk aflann í sjö holum. Ólafur Guðnason stýrimaður segir að um tíma hafi ekki verið sérstök veiði en heldur hafi ræst úr henni. Aflinn fékkst 90-100 mílur inni í færeysku lögsögunni um 240 mílur frá Norðfirði.
Ljósmynd Hákon Ernuson