Kolmunni og síld til Neskaupstaðar

Deila:

Bjarni Ólafsson AK kom síðastliðna nótt með um 930 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar og nú síðdegis kom Börkur NK með rúmlega 1.100 tonn af síld.

Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að kolmunnaveiðin sé heldur treg. „Við vorum að veiðum djúpt út af Norðfjarðardýpi, um 60-70 mílur frá landi. Við vorum fimm daga að veiðum og var aflinn tekinn í fimm holum. Þegar skyggja tekur hverfur kolmunninn alveg og því er látið reka frá klukkan hálf sex síðdegis til klukkan sjö á morgnana og einungis togað á daginn,“ segir Runólfur.

Bjarni Ólafsson mun halda til veiða á ný í kvöld að lokinni löndun.

Börkur var að síldveiðum í færeysku lögsögunni og fékk aflann í sjö holum. Ólafur Guðnason stýrimaður segir að um tíma hafi ekki verið sérstök veiði en heldur hafi ræst úr henni. Aflinn fékkst 90-100 mílur inni í færeysku lögsögunni um 240 mílur frá Norðfirði.

Ljósmynd Hákon Ernuson

 

Deila: