Lágt fiskverð dregur aflaverðmæti niður

Deila:

Aflaverðmæti íslenskra skipa í maí var tæpir 10,7 milljarðar króna sem er um 11,3% minna en í maí 2016. Fiskafli íslenskra skipa í mánuðinum var þó 27% meiri en heildaraflinn í maí 2016, eða tæp 138 þúsund tonn samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.

Verðmæti botnfiskaflans nam rúmum 8 milljörðum sem er 4,7% samdráttur miðað við maí 2016. Verðmæti þorskaflans nam tæpum 5 milljörðum og dróst saman um 0,9% þrátt fyrir 19,9% aukningu í magni. Samdráttur varð einnig í verðmæti annarra tegunda. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 23,4% og verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 24,8%.

Á 12 mánaða tímabili frá júní 2016 til maí 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 114 milljörðum króna sem er 19,7% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Það er þrátt fyrir að heildaraflinn á umræddu tímabili hafi verið 1% meiri nú. Því má segja að tæplega 20% lækkun verðmætis endurspegli verulega lækkun á fiskverði, þó samsetning tegunda geti haft eitthvað að segja.

Þannig má sjá að 23% aukning í þorskafla í maí skilar tæplega einu prósenti minna í aflaverðmæti. Í ýsunni skilar 17% aflaaukning 10,5% samdrætti í aflaverðmæti og þar er verðlækkunin enn meiri. Loks má benda á að 37% aukning í uppsjávarfiski, skilar 24,8% samdrætti í magni. Það endurspeglar miklar verðlækkanir en nær eingöngu var um kolmunna að ræða í uppsjávarveiðinni í maí. Hann fer allur í bræðslu og því ódýrt hráefni, en þar lækkar aflaverðmætið mest.

 

Deila: