Aldrei fleiri dagar á strandveiðum

Deila:

Á yfirstandandi strandveiðitímabili var fjöldi  leyfilegra veiðidaga alls 227 og hafa þeir aldrei verið fleiri í sögu strandveiða.  Helstu ástæður þess eru að færri stunduðu veiðarnar heldur en undanfarin ár og þá var aflaviðmiðun hækkuð sem varð til þess að dagar urðu fleiri í ágúst en að óbreyttu.

Á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda er farið yfir fyrirkomulag veiðanna og gang þeirra í ár.

Strandveiðar hófust 18. júní 2009.  Veiðarnar voru lögfestar í maí 2010 og frá þeim tíma hafa þær verið stundaðar í 4 mánuði ár hvert.

Veiðileyfi til strandveiða heimilar veiðar með handfærum 4 daga í viku hverri mánuðina maí til og með ágúst.  Óheimilt er að stunda veiðarnar á föstu-, laugar- og sunnudögum, auk rauðra daga í almanaki.

Til strandveiða er áætlaður ákveðinn afli sem skipt er niður á hvert og eitt veiðisvæði sem eru fjögur, A, B, C, D.

Strandveiðar uppgjör 1

Aflanum er deilt á hvern mánuð og eru veiðar stöðvaðar þegar aflaviðmiðun er náð.  Hámarksafli í hverri veiðiferð má ekki fara umfram 774 kg af þorski eða 650 þorskígildi.  Þá er aðeins heimilt að landa einu sinni á hverjum degi og má hver veiðiferð ekki vera lengri en 14 klst.

Strandveiðar uppgjör 2

Þó aflaviðmiðun til strandveiða hafi aukist nokkuð frá upphafi nægir hún ekki til að hægt sé að stunda veiðarnar samfellt frá maí til og með ágúst.  Á strandveiðum sem lýkur 31. ágúst nk. hefði ekki þurft að bæta mikið við afla sem ætlaður er til strandveiða til að komast hjá stöðvun veiða.

Strandveiðar uppgjör 3

Á svæði D, þar sem bátar eru enn að veiðum nægði aflaviðmiðun í öllum mánuðum.  Á svæðum B og C þurfti engar áhyggjur af stöðvun veiða að hafa fyrr en í ágúst, en þá var aflaviðmiði náð eftir 10 daga.  Þessu horfði öðruvísi við á svæði A.  Þar stöðvuðust veiðar í öllum mánuðum.  Í maí voru dagarnir 13, 10 í júní og 8 hvorum mánaðanna júlí og ágúst.

 

Deila: