Minna framboð úr Barentshafi

Deila:

Framboð á þorski og ýsu úr Barentshafi er nú minna en í fyrra og á það bæði við um veiðar Rússa og Norðmanna. Fyrir vikið hefur eftirspurn eftir eftir þessum tegundum verið mikil og verð í Bretlandi tiltölulega hátt. Þá hefur það haft mikil áhrif á markaðinn að hér var sjómannaverkfall í tvo mánuði í vetur.

Farið er yfir þessi mál á fréttavefnum Undercurrent  News. Þar kemur fram að þorskafli Norðmanna úr Barentshafi fram til síðustu mánaðamóta hafi verið 248.480 tonn, eða 62,2% af heildarkvóta þeirra. Ýsuaflinn er 53.697 tonn, sem er 47,3% af kvótanum. Þetta er heldur minna en á sama tíma í fyrra.

Þorskkvótinn fyrir þetta ár í Barentshafi var ákveðinn 890.000 tonn af Norðmönnum og Rússum og ýsukvótinn er 233.000 tonn. Það er í samræmi við ráðleggingar fiskifræðinga í ýsunni en 85.000 tonnum meira í þorskinum.

Afli Rússa er einnig minni í ár en í fyrra. Aflinn í mars og apríl var miklu minni nú og veiðarnar hafa verið óstöðugar.  Verður var óhagstætt í vetur og leiddi það meðal annars til þess að Rússar náðu ekki að klára kvóta síðasta árs. Síðustu aflatölur frá maíbyrjun sýna 136.000 tonna afla sem er 6% samdráttur og ýsuaflinn var þá 41.700 tonn, sem er 18% minna en í fyrra.

Markaðurinn fyrir þorskflök í Bretlandi hefur verið góður og Norðmenn eru að fá mjög gott verð fyrir þau. Þar er mest um fryst flök að ræða en verð á ferskum flökum hefur einnig verið gott í Bretlandi mælt í breskum pundum. Gert er ráð fyrir skorti á flökum á breska markaðnum í sumar. Þá hafa Norðmenn verið að auka útflutning sinn á heilfrystum, hausuðum og slægðum, þorski til Bretlands.

Íslendingar juku útflutning sinn á frystum flökum til Bretlands á síðasta ári um 30%, en verkfallið í vetur hefur slegið á þá þróun.

 

Deila: