Vilja róttækar breytingar á ráðstöfun byggðakvóta

Deila:

Starfshópur sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun byggðakvóta vill gera róttækar breytingar á henni. Hann vill að kvótanum verði útdeilt til 10 ára í senn. Hann vill ennfremur að fleiri aðilum en nú verði gefinn kostur á aðkomu að nýtingu kvótans og að löndunarskylda verði ekki endilega forsenda úthlutunar.

Samkvæmt skipunarbréfi er starfshópnum falið að leita leiða til að hámarka nýtingu þeirra 12.200 tonna sem sérstaklega eru ætluð til eflingar sjávarbyggða í vanda. Starfshópurinn gerir því ekki tillögur um breytingar á ráðstöfun þeirra 17 þúsund tonna sem úthlutað er til strandveiða, rækju- og skelbóta, línuívilnunar og frístundaveiða en telur mikilvægt að einnig verði leitað leiða til að auka jákvæð áhrif slíkra aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins. Leiðir til að takmarka tilfærslur á löndun eða vinnslu aflamarks í almenna kerfinu milli byggðarlaga, sveitarfélaga eða landshluta falla jafnframt utan verksviðs starfshópsins.

Forsendur starfshópsins

Starfshópurinn er sammála um eftirfarandi forsendur:
• Atvinna og byggð verður ekki tryggð í öllum sjávarbyggðum landsins með úthlutun 12.200 tonna byggðakvóta. Þessar aflaheimildir nýtast best til að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem hafa átt erfiðast með að aðlagast breytingum í sjávarútvegi.
• Úthluta ætti föstum byggðakvóta til lengri tíma til að stuðla að stöðugleika í viðkomandi sjávarbyggðum og skapa þannig forsendur fyrir langtímaáætlunum og fjárfestingum einstaklinga og fyrirtækja.
• Tryggja þarf sveigjanleika í ráðstöfun byggðakvóta til að mæta aðstæðum á hverjum stað og stuðla að fjölbreyttum lausnum á vanda minni sjávarbyggða, þ.m.t. uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi ef ekki eru lengur taldar forsendur fyrir sjávarútvegi.
• Byggðakvóta er ætlað að efla atvinnulíf í sjávarbyggðum en ekki einungis rekstur tiltekinna fyrirtækja innan þeirra. Gæta þarf jafnræðis milli einstaklinga og fyrirtækja og tryggja að þau verðmæti sem felast í byggðakvóta skili sér til samfélagsins í heild.
• Ráðstöfun byggðakvóta ætti að byggjast á samningi ríkis, viðkomandi sveitarfélags og annarra aðila um eflingu atvinnulífs í viðkomandi sjávarbyggð. Slíkir samningar ættu að vera til lengri tíma, hafa skýr, mælanleg markmið og meta þarf árangur þeirra.
• Meginúthlutun byggðakvóta ætti að byggja á einföldu, hlutlægu reiknilíkani sem beitt er með sama hætti í öllum sjávarbyggðum miðað við stöðu þeirra á viðmiðunartíma kvótakerfisins 1980–1983 og þróun þeirra frá upphafi kvótakerfisins.
• Mannfjöldaþróun í sjávarbyggðum er hlutlægur mælikvarði sem sýnir bæði vöxt eða hnignun í sjávarútvegi og árangur í uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi. Úthlutun byggðakvóta ætti að aukast með mannfjölda upp að ákveðinni stærð sjávarbyggða við upphaf kvótakerfisins en fjara út eftir það. Úthlutun byggðakvóta ætti að aukast með fólksfækkun en minnka með fólksfjölgun eftir upphaf kvótakerfisins.
• Viðbótarúthlutanir vegna sérstakra aðstæðna í einstökum sjávarbyggðum ættu að byggja á ítarlegri greiningu á öllum sjávarbyggðum sem uppfylla skilyrði reglugerðar um sérstakt aflamark Byggðastofnunar.

Tillaga starfshópsins um ráðstöfun byggðakvóta

Starfshópurinn gerir eftirfarandi tillögu um ráðstöfun byggðakvóta:

  1. Byggðakvóta verði úthlutað til 10 ára á grundvelli samstarfssamninga um atvinnuþróun milli Byggðastofnunar fyrir hönd ríkisins og sveitarfélaga fyrir hönd sjávarbyggða. Meta ætti árangur slíkra samninga og taka ákvörðun um endurnýjun þeirra eftir fimm ár.
    Bjóða megi öðrum aðilum aðild að slíkum samningum, svo sem íbúasamtökum eða hverfisráðum, atvinnuþróunarfélögum, landshlutasamtökum, frjálsum félagasamtökum, fyrirtækjum eða samtökum þeirra. Slíkir samningar geti náð til einnar eða fleiri sjávarbyggða innan sama sveitarfélags eða landshluta. 5
    3. Í samningunum komi fram greining á stöðu og framtíðarmöguleikum viðkomandi sjávarbyggða, markmið um þróun þeirra á samningstímanum, fyrirhuguð ráðstöfun byggðakvótans, hlutverk og framlög allra samningsaðila og skýrir mælikvarðar til að hægt sé að meta framgang hvers verkefnis. Heimilt verði að semja um greiðslur til skýrt skilgreindra verkefna, umsýslu og eftirlits með framfylgd samningsins.
    4. Heimilt verði að semja um úthlutun byggðakvóta til að byggja upp arðbæra fiskvinnslu í byggðarlaginu með samkomulagi milli aðila í veiðum og vinnslu líkt og lýst er í reglugerð um aflamark Byggðastofnunar.
    5. Heimilt verði að semja um úthlutun byggðakvóta án vinnsluskyldu ef samningsaðilar telja ekki vera forsendur fyrir arðbærri vinnslu í byggðarlaginu. Slík úthlutun ætti að lágmarki að uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um strandveiðar en heimilt verði að setja frekari skilyrði um lögheimili eigenda og áhafnar, hámarksstærð báta, löndunarstað, veiðarfæri eða úthluta byggðakvóta sem ívilnun við löndun annars afla.
    6. Heimilt verði að semja um nýtingu byggðakvóta í annarri sjávarbyggð í sama landshluta sem einnig hefur fengið úthlutað byggðakvóta gegn mótframlagi. Markmið slíkrar ráðstöfunar og ávinningur beggja sjávarbyggða af henni ætti koma skýrt fram í viðkomandi atvinnuþróunarsamningum.

Starfshópurinn gerir eftirfarandi tillögu um skiptingu byggðakvóta:

  1. Byggðakvóta verði einungis úthlutað til byggðarlaga þar sem sjávarafla var landað við upphaf kvótakerfisins árið 1983 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.
    2. Byggðarlag samsvari byggðakjarna samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands8 með þeirri undantekningu að tveir eða fleiri byggðakjarnar teljist eitt byggðarlag ef innan við 5 km akstursfjarlægð er á milli þeirra skv. upplýsingum Vegagerðarinnar.
    3. Meðalfjöldi íbúa 1980–1983 verði reiknaður á grundvelli gagna Hagstofu Íslands um mannfjölda í einstökum byggðakjörnum 1. desember 1980–19838 . Meðalfjöldi íbúa 2013–2016 verði reiknaður á grundvelli gagna Hagstofu Íslands um mannfjölda í einstökum byggðakjörnum 1. janúar 2014–2017.
    4. Úthlutað verði einu tonni fyrir hvern íbúa miðað við meðalfjölda íbúa í hverju byggðarlagi á tímabilinu 1980–83 upp að 500 íbúum en lækki um eitt tonn fyrir hvern íbúa umfram það. Úthlutun hækki um eitt tonn fyrir hvern íbúa sem fækkað hefur í byggðarlaginu miðað við meðalfjölda íbúa 1980–83 og 2013–2016 en lækki um eitt tonn fyrir hvern íbúa sem fjölgaði miðað við sömu forsendur. Formlega verði úthlutun reiknuð þannig: Úthlutun = 500 – ǀ500 – Aǀ + A – B þar sem A er meðaltalsfjöldi íbúa 1980 – 1983 og B er meðaltalsfjöldi íbúa 2013-16.
  2. Litið verði til gildandi samninga á grundvelli reglugerðar um aflamark Byggðastofnunar sem úthlutun vegna sérstakra aðstæðna sem reiknilíkanið endurspeglar ekki. Úthlutun á byggðakvóta vegna einstakra byggðarlaga verði því aldrei lægri en fram kemur í gildandi samningum um aflamark Byggðastofnunar.

 

Deila: