Góð afkoma og þjónustutekjur aldrei hærri

Deila:

„Rekstur Marel gekk vel á þriðja ársfjórðungi þar sem tekjur námu 313 milljónum evra.  Tekjur og EBIT aukast um 11% á milli ára og EBIT framlegð er stöðug í 14.2%. Tekjur af þjónustu og varahlutum fara vaxandi og námu 37% af heildartekjum. Sjóðsstreymi er gott og hagnaður á hlut eykst um 11% á milli ára,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel um afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Hann segir svo ennfremur:

„Mótteknar pantanir voru 285 milljónir evra sem er nokkuð lægra en við vonuðumst eftir. Engu að síður aukast pantanir um 7% milli ára. Aðstæður á markaði eru krefjandi fyrir matvælaframleiðendur vegna umróts á alþjóðamörkuðum. Í slíkum aðstæðum geta pantanir auðveldlega sveiflast á milli ársfjórðunga. Sameiginlegt verkefni okkar og viðskiptavina okkar er að tryggja framboð til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir kjúklingi, kjöti og fiski á heimsvísu. Alþjóðlegt sölu- og þjónustunet ásamt framsæknu vöruframboði setur Marel í lykilstöðu.

Við tryggjum áframhaldandi vöxt með nýsköpun og markaðssókn, studda af yfirtökum og strategískum samstarfssamningum. Kaup á Cedar Creek Company munu styrkja stöðu Marel í hugbúnaðarlausnum í Eyjaálfu. Samstarf við TOMRA Food er ætlað að styrkja enn frekar okkar sterku stöðu í skynjaralausnum til að hámarka verðmæti afurða, lágmarka sóun í framleiðslu og auka matvælaöryggi.

Síðast en ekki síst, þá erum við mjög spennt að taka höndum saman með Curio sem færir okkur nær því að bjóða heildarlausnir fyrir fiskvinnslu um heim allan.”

Marel undirritar kaup á Curio og Cedar Creek Company

Þann 22. október 2019 samþykkti Marel kaup á 50% hlut í Curio, framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50% hlut eftir fjögur ár. Með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu færist Marel nær því að geta boðið viðskiptavinum heildarlausnir fyrir hvítfiskvinnslu. Curio er íslenskt félag með árstekjur sem nema um 10 milljónum evra. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Frekari upplýsingar: https://marel.com/is/curio

Þann 23. október 2019 samþykkti Marel kaup á Cedar Creek Company, áströlskum framleiðanda sem sérhæfir sig í hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu. Árstekjur félagsins eru um 3 milljónir evra. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Frekari upplýsingar: https://marel.com/cedarcreek

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar á síðustu árum en eru nú meira krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaðar í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

 • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
 • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
 • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði því ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Helstu atriði 3F 2019

 • Pantanir námu 285,0 milljónum evra (3F18: 267,7m).
 • Tekjur námu 312,5 milljónum evra (3F18: 282,0m).
 • EBIT* nam 44,3 milljónum evra (3F18: 40,0m), sem var 14,2% af tekjum (3F18: 14,2%).
 • Hagnaður nam 33,4 milljónum evra (3F18: 26,7m).
 • Hagnaður á hlut (EPS) var 4,38 evru sent (3F18: 3,94 evru sent).
 • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 47,7 milljónum evra (3F18: 31,6m).
 • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x0,5 í lok september (2F19: x0,6). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3 nettó skuldir/EBITDA.
 • Pantanabókin stóð í 431,9 milljónum evra við lok annars ársfjórðungs (2F19: 459,4m og 3F18: 510,8m).

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).

 

 

Deila: