Árangur skipa sem nota Streamline fiskitroll frá Ísfelli vekur Athygli

Deila:

Streamline trollin eru alhliða fiskitroll sem hafa sýnt að þau hafa marga kosti umfram hefðbundin troll, bæði gömul og ný.   Þetta er afkastamikið veiðarfæri með litla sem enga ánetjun, það þykir létt í drætti og er hannað til að veita sem minnst viðnám án þess að tapa þeirri kjörhæfni að taka allan þann fisk sem fyrir því verður og skila honum niður í poka. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Ífells.

Streamline fiskitrollið er sett upp að mestu leyti úr Safír NG Compact neti sem er slitsterkara og núningsþolnara en hefðbundið grænt PE net.  Með því að nota SNG efnið eins og það er kallað þá er hægt að grenna niður sverleika á neti í trollinu og með því minnka flatarmál netsins sem skilar sér í því að trollið verður léttara í drætti.

Höfuðlínan og aðrar línur í trollinu eru úr Dyneema Duo efni fyrir utan fiskilínu og gafllínur sem eru úr keðju.  Dyneema Duo efnið er mjög slitsterkt og núningsþolið.  Á höfuðlínuna eru svo notaðar 9,5“ Hydro Dynamic trollkúlur (golfkúlur) sem eru sérstaklega framleiddar fyrir Ísfell og Selstad í Noregi og hafa mikinn styrk og flotkraft.  Með þessu móti er hægt að fækka kúlum á höfuðlínunni og hreyfing og flökt á höfuðlínu verður með allra minnsta móti, mótstaða verður einnig minni þar sem kúlurnar eru færri ef miða er við að nota hefðbundnar 8“ trollkúlur.

Fyrsta skipið til að taka Streamline trollið var Bjartur, skip Síldarvinnslunnar og fljótlega á eftir fylgdi Barðinn en þessi tvö skip hafa nú verið seld úr landi.  Gullver frá Seyðisfirði, Málmey og Klakkur frá Sauðárkróki og Ljósafell frá Fáksrúðsfirði fylgdu svo í kjölfarið og hafa notað Streamline troll með góðum árangri.

Það má segja að sú þróun sem hefur verið á Streamline trollinu síðan fyrsta trollið var sett upp hafi komið frá skipstjórnarmönnum og áhöfn Málmeyjar og Rúnars Kristjánssonar rekstrarstjóra Ísfells á Sauðárkróki.  Þar hafa menn í sameiningu betrumbætt annars mjög gott veiðarfæri með þeim árangri að athygli vekur.

Nýverið bættust svo nýsmíði skipin Kaldbakur EA 1 frá Útgerðarfélagi Akureyringa og Björgúlfur EA-312 frá Samherja við þann hóp skipa sem eru að nota Streamline troll. Almenn ánægja er með veiðarfærin um borð í þessum skipum, talað um að trollin séu létt í drætti, lítil sem engin ánetjun og mjög lítið viðhald er á trollunum.  Trollin voru sett upp á verkstæðum Ísfells á Sauðárkróki og á Akureyri.

Um þessar mundir er unnið að því að setja upp tvö ný troll fyrir Drangey SK sem er systurskip Kaldbaks og Björgúlfs sem áætlað er að hefji veiðar um miðjan desember n.k.

 

Deila: