Fékk trollið í skrúfuna
Það óhapp varð í gær að Akurey AK fékk trollið í skrúfuna er skipið var að karfaveiðum á Jökultungu. Togarinn Ottó N. Þorláksson RE, sem var á leið á Vestfjarðamið, var staddur í um 30 mílna fjarlægð og tók hann Akurey í tog um kl. 22 í gærkvöldi.
,,Það er haugasjór núna en ekki svo mikill vindur. Ölduhæðin er upp í um sjö metra en ástandið núna er hátíð miðað við gærkvöldið. Þá var vindhraðinn 25-30 metrar á sekúndu og mikill sjór,“ segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey, í samtali á heimasíðu HB Granda, en hann segist hafa verið að enda veiðiferðina er óhappið varð.
,,Við vorum komnir með um 120 tonna afla og hugmyndin var að ljúka veiðiferðinni á karfaveiðum á Jökultungunni. Óhappið varð um kl. 18 en sem betur fer var Ottó ekki langt undan,“ segir Eiríkur en frá þeim stað, sem Akurey fékk trollið í skrúfuna, til hafnar í Reykjavík er um 75 mílna sigling.
Að sögn Eiríks ætti Akurey að vera komin til hafnar í Reykjavík um miðjan dag.
,,Við erum komnir að Garðskaga og ferðin á okkur er um sjö mílur á klukkustund. Varðskipið Þór er hér í sex mílna fjarlægð og verður okkur til aðstoðar ef eitthvað fer úrskeiðis á leiðinni til hafnar,“ segir Eiríkur Jónsson.