Minningarathöfn um sjóslysin í Djúpinu

Deila:

Um þessar mundir eru fimmtíu ár liðin frá sjóslysunum miklu sem urðu í Ísafjarðardjúpi í febrúarbyrjun. Þá fórust 26 sjómenn af tveimur breskum og íslenskum fiskibáti í geysilegu fárviðri. Sex skipverjar á Heiðrúnu II frá Bolungarvík voru á meðal þeirra sem fórust, auk nítján manna áhafnar togarans Ross Cleveland. Einn úr áhöfninni bjargaðist. Í þessu sama óveðri strandaði togarinn Notts County á Snæfjallaströnd. Áhöfn varðskipsins Óðins vann afrek þegar hún bjargaði átján manns úr skipinu við mjög erfiðar aðstæður. Einn úr áhöfninni var þá látinn.

Af þessu tilefni stóð Sjóminjasafnið í Reykjavík, sem er hluti af Borgarsögusafni, fyrir minningarathöfn um borð í Óðni en skipið er í dag hluti af safninu. Fjöldi fólks kom saman í þyrluskýli varðskipsins til að fylgjast með athöfninni. Séra Sveinn Valgeirsson Dómkirkjuprestur fór með minningarorð um þá sem fórust.

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, heiðraði  Sigurð Þ. Árnason, skipherra.

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, heiðraði Sigurð Þ. Árnason, skipherra.

Þá ávarpaði Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, viðstadda og heiðraði svo Sigurð Þ. Árnason, sem var skipherra á Óðni í þessari örlagaríku ferð. Loks flutti Gylfi Geirsson, formaður öldungaráðs Landhelgisgæslunnar, fróðlegt erindi um þessi hörmulegu sjóslys og björgunarafrekið sem varðskipsmenn unnu. Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar söng nokkur vel valin lög. Að athöfninni lokinni var boðið til kaffisamsætis í matsal varðskipsins.

Deila: