Spennandi tímar framundan

Deila:

Þrír ungir menn hlutu nýlega umhverfisverðlaun í áfanga fyrir haftengda nýsköpun og stofnun fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík fyrir hugmyndina um Hið íslenska sjávarsoð. Hugmyndin gengur út á að nýta umfram jarðvarma frá jarðvarmavirkjunum til að sjóða niður fiskikraft unninn úr fiskibeinum.

Einn þeirra er Kristján Guðmundur Sigurðsson, starfsmaður Odda hf. á Patreksfirði. „Markaður fyrir þurrkaða hryggi er mjög slakur eftir að markaðurinn í Nígeríu fyrir þurrkaðar fiskafurðir hrundi. Hugmyndin er að taka beinin og breyta þeim í fiskisoð, auka vinnsluvirði vörunnar verulega. Jafnframt að nota umfram grænmeti frá grænmetisframleiðendum, sem fer ekki í sölu í búðir. Þá yrði þetta soðið niður um helming þannig að afurðin væri seigfljótandi fiskikraftur til að nýta í fiskisúpur,“ segir Kristján Guðmundur.

Mjög arðbær framleiðsla

„Við gerðum athugun fyrir norðan, fórum á alla betri veitingastaði þar til að kanna möguleikana en framleiðslan er fyrst og fremst hugsuð fyrir atvinnueldhús. Það er gott fyrir kokkana ef þeir ætla að vera með alvöru fiskisoð, að fá það tilbúið í stað þess að verja löngum tíma í að búa það til. Því var það hugmyndin hjá okkur að þeir geti einfaldlega fengið það tilbúið. Við vorum einnig búnir að hafa samband við aðila úti sem þjónusta veitingastaði og hótelkeðjur.  Við teljum því að nokkuð góður markaður sé fyrir soðið.

Varan er það arðbær, að þó við myndum aðeins selja einn fjórða af því sem við gerðum ráð fyrir, myndi fyrirtækið ná núllpunkti strax á öðru starfsári. Við settum upp dæmi fyrir 200.000 lítra á ári, sem eru rétt rúmlega 1.000 lítrar á dag, en þó framleiðslan væri ekki nema 250 lítrar á dag, fimm daga vikunnar, 40 vikur á ári, erum við samt að koma út í gróða, samkvæmt áætlun okkar.“

Nýjung í nýtingu affallsvatns

Þeir félagar eru að taka þátt í annarri keppni, sem byggist á að gera sér mat úr jarðhitanum. „Hugmyndin okkar virkar þannig að við myndum nota rafmagn til að koma pottunum í suðu, en af því það fellur svo mikið af vannýttu heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum,sem er í kringum120 gráðu heitt, væri hægt að slökkva á rafmagninu og nota heita vatnið til að viðhalda suðunni þann  tíma sem þarf til að sjóða kraftinn niðir. Að framleiða fiskisoðið er í sjálfu sér engin nýjung, en að nota þetta heita vatn sem til fellur er nýsköpunin í hugmyndinni okkar.“

Höfundar hugmyndarinnar eru allir í haftengdri nýsköpun sem er eins árs diplomanám í samstarfi við Virku í Vestmannaeyjum og Háskólann í Reykjavík. Þeir taka ennfremur ákveðna sjávarútvegsáfanga í Háskólanum á Akureyri.

Mjög fínt nám

„Þetta nám er mjög fínt fyrir þá sem vilja kynnast sjávarútveginum betur. Við erum líka spenntir að sjá hvernig gengur í hinni keppninni því Íslensk verðbréf halda utanum hana. Góður árangur gefur því ákveðna tengingu til stofnunar svona fyrirtækis. Það er mjög spennandi því gaman væri að sjá þessa hugmynd verða að veruleika,“ segir Kristján.

Tengsl hans við sjávarútveginn er góð og hann hefur verið að mennta sig á því svið: „Ég fór í Fisktækniskólann í Grindavík lauk námi í fisktækni. Svo tók ég Marel vinnslutæknina og gæðastjórnun matvæla líka. Ég hef síðan starfað hjá Odda hf. á Patreksfirði. Ég er þannig í góðum tengslum við  sjávarútveginn. Mér finnst hann spennandi og hann er að þróast mjög hratt. Ég er ekki viss um að menn geri sér almennt grein fyrir því hve mikið af hátæknistörfum eru innan sjávarútvegsins. Fiskvinnslan er alltaf eins í grunninn, en tækjabúnaðurinn er að breytast svo mikið að til að geta þjónustað hann, þarf maður að kunna vel á tæknina. Þó það hafi verið erfitt núna undanfarið held ég að það séu bara spennandi tímar framundan í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Kristján Guðmundur Sigurðsson.

 

Deila: