Hörmuleg sjóslys og eftirminnileg björgun
Hér fer á eftir erindi Gylfa Geirssonar, formanns öldungaráðs Landhelgisgæslunnar um sjóslysin í byrjun febrúar 1968 og björgunaraflrek sem þá voru unnin. Erindis birtist á heimasíði Gæslunnar og er þar að finna fleiri myndir með því:
Í byrjun árs 1968 urðu hörmuleg sjóslys við Ísland en einnig eftirminnileg björgunaraðgerð.
Ég ætla hér að rifja lauslega upp þess atburði, tap skipanna, björgunaraðgerðina þegar áhöfn breska togarans Notts County var bjargað, þau tæki og tækni sem þá voru í boði við björgunaraðgerðir sem og við siglingar og fjarskipti auk eftirmála þessa atburða. Þetta er byggt á fréttum fjölmiðla á þessum tíma, opinberum rannsóknar-skýrslum í Bretlandi, umræðum í breska þinginu, öðrum rituðum heimildum og samtali við Sigurð Þ. Árnason skipherra.
Breski togarinn St. Romanus sigldi frá Hull 10. janúar 1968 og síðasta samband við togarann var að kvöldi sama dags. Á þessum tíma voru engar opinberar kröfur um tilkynningar en útgerðin ætlaðist samt til þess að staðsetning og afli væru tilkynnt daglega. Þrátt fyrir það var ekki farið að óttast um togarann fyrr en 26. janúar eftir að ítrekað hafði verið reynt að hafa samband við hann en án árangurs.
Á sama tíma kom í ljós að björgunarbátur sem skip fann þann 13. janúar var frá St. Romanus. Í framhaldi hófst leit að togaranum en þann 30. janúar var fjölskyldum áhafnarinnar tilkynnt að það væru litlar líkur á að áhöfnin sem taldi 20 manns hafi komist af.
Það kom svo síðar fram í opinberri rannsókn að þann 11. janúar hafi heyrst neyðarkall. Þeir sem heyrðu neyðarkallið töldu að þetta væri langt í burtu og að annað skip væri komið í samband. Því var ekkert frekar aðhafst, en rétt er að geta þess að á þessum tímum, sérstaklega á kvöldin og nóttinni mátti oft heyra neyðarköll skipa í mikilli fjarlægð á neyðartíðninni 2182.
Þó svo að þetta sjóslys hafi ekki átt sér stað við Ísland, er það ávallt talið með í því sem Bretar kalla “The Triple Trawler Tragedy”.Breski togarinn Kingston Peridot sigldi einnig frá Hull þann 10. janúar 1968. Um borð var 20 manna áhöfn. Þann 26. janúar var togarinn að veiðum vestur af Grímsey í slæmu veðri og lét annan togara, Kingston Sardius vita að þeir ættu í erfiðleikum vegna ísingar og ætlaði að halda í austur í áttina að honum. Eftir það náðist ekkert samband við Kingston Peridot og 29. janúar fannst björgunarbátur og bjarghringir frá togaranum ásamt braki í fjöru í Axarfirði. Þar hafði einnig orðið vart við olíumengun. Í Morgunblaðinu 31. janúar eru leiddar líkur að því að Kingston Peridot hafi farist á svokölluðum Mánárbreka, sérstaklega í ljósi olíumengunarinnar.
Ross Cleveland
Ross Cleveland sigldi frá Hull að morgni 20. janúar 1968. Um borð var 20 manna áhöfn. Hinn 25. janúar hóf hann veiðar út af NA landi en veðrið var slæmt svo hann hélt á Vestfjarðamið. Þann 26. janúar var veðrið ekki hagstætt fyrir veiðar og matsveinninn var orðinn veikur. Skipstjóri Ross Cleveland sigldi því til Ísafjarðar þar sem matsveinninn var lagður inn á sjúkrahúsið.
Eftir að hafa fyllt á vatnstanka var haldið til veiða á Kögurgrunni en vegna veðurs var ekki hægt að hefja veiðar fyrr en næsta dag. Veðrið hélt áfram að vera risjótt til 2. febrúar og á þessu tímabili var stundum hægt að stunda veiðar og stundum ekki.
Að morgni 1. febrúar sendi útgerð Ross Cleveland skipstjóranum eftirfarandi skeyti: “Suggest carrying on fishing. Come for Monday’s market. What do you advise?”
Skipstjóri Ross Cleveland svaraði: “Intend coming for Monday’s market.”
Síðdegis 3. febrúar var slæm veðurspá móttekin og skipstjóri Ross Cleveland ákvað að leita vars í Ísafjarðardjúpi. Töluverður fjöldi annarra togara sem voru að veiðum á sömu slóðum og Ross Cleveland ákváðu einnig að leita vars.
Sumir togaranna lögðust fyrir akkeri en aðrir urðu að halda sjó. Veðrið varð verra og verra og öll skipin fengu á sig ísingu sem þeir reyndu að hreinsa af að fremsta megni. Óveðrið hélt áfram og um klukkan 23:30 þann 4. febrúar hafði hlaðist svo mikill ísing á ratsjárloftnet Ross Cleveland að ratsjáin varð óvirk.
Annar breskur togari, Kingston Andalusite, sem var í næsta nágrenni, var því beðinn um að gefa upplýsingar um staðsetningu Ross Cleveland sem fengnar voru frá ratsjá.
Um það bil tíu mínútum síðar, þegar ratsjá Ross Cleveland var komin í notkun aftur, ákváðu skipstjórar togaranna að halda upp í vindinn. Með stýrishjólið hart í stjór reyndi skipstjóri Ross Cleveland að koma skipinu upp í vindinn en það tókst ekki og Ross Cleveland lagðist yfir á bakborða og sökk.
Ross Cleveland var sokkinn, en áður en skipið sökk sendi skipstjórin út eftirfarandi:
“I am going over. We are laying over. Help me. I am going over. Give my love and the crew’s love to the wives and families.”
Heiðrún II
Meðan á þessu stóð reyndu sex menn frá Bolungarvík að fara með vélbátinn Heiðrúnu II úr höfninni í Bolungarvík inn til Ísafjarðar vegna sjógangs í höfninni. Á þessum tíma var NA fárviðri með stórhríð og frosti. Skipverjar á Heiðrúnu áttu í erfiðleikum með ratsjá og önnur siglingatæki vegna ísingar og var talstöð bátsins einnig í ólagi. Óskuðu þeir eftir að varðskipið Óðinn mundi reyna að staðsetja þá.
Laust fyrir miðnætti taldi varðskipið Óðinn sig hafa fundið Heiðrúnu skammt undan landi við Bjarnarnúp en vegna gífurlegrar ísingar urðu ratsjár varðskipsins óvirkar.
Þá var ekki um annað að ræða en að reyna að hreinsa ís af ratsjárloftnetum og spurði Sigurður Þ. Árnason skipherra Pálma Hlöðversson stýrimann hvort hann mundi treysta sér til að fara upp í mastrið ef varðskipinu yrði bakkað upp í veðrið.
Pálmi taldi það mögulegt og eftir að búið var að snúa varðskipinu með skutinn upp í veðrið komst Pálmi að neðra ratsjárloftnetinu þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður þar sem hann þurfti að höggva sér leið upp að loftnetinu þar sem honum tókst að lokum að hreinsa ísinn af því.
Eftir að þetta hafði tekist og varðskipið aftur komið með virka ratsjá fannst Heiðrún ekki aftur. Um miðnætti náðist síðast samband við bátinn. Mikil leit hófst daginn eftir en hún bar ekki árangur. Þarna fórust 6 menn, þar af faðir og tveir synir, 17 og 19 ára gamlir.
Notts County
Í beinu framhaldi af þessu barst neyðarkall frá breska togaranum Notts County sem sagðist vera strandaður við Snæfjallaströnd. Varðskipið Óðinn undir stjórn Sigurðar Þ. Árnasonar skipherra lagði strax af stað áleiðs að Notts County og kom á staðinn um kl. tvö um nóttina.
Varðskipsmenn töldu sig sjá togarann í ratsjá en vegna veðurs og náttmyrkurs var ekki unnt að hefja björgunaraðgerðir fyrr en með morgninum.
Varðskipið hélt því aftur til leitar að Heiðrúnu og hélt því áfram fram á morgun. Þá var haldið aftur að Notts County en vegna veðurs sást ekki til togarans fyrr en um hádegi.
Aðstæður voru afar erfiðar, mikil ísing hlóðst á varðskipið, önnur ratsjáin var meira og minna óvirk og mest af loftnesbúnaði hafði slitnað og brotnað. Áhöfnin hafði verið uppi í á annan sólarhring og allir hásetar og vélalið höfðu verið í því að höggva ís af skipinu.
Þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður var ákveðið að reyna björgun áhafnar Notts County. Fóru stýrimennirnir Sigurjón Hannesson og Pálmi Hlöðversson á Zodiac slöngubát með óuppblásna gúmmíbjörgunarbáta meðferðis að togaranum. Þeir urðu hvað eftir annað að hægja ferðina eða stoppa og færa sig til í bátnum til að honum mundi ekki hvolfa þegar mestu rokurnar gengu yfir.
Það gekk stöðugt sjór yfir slöngubátinn sem fraus jafnóðum og gerði allt erfiðara. Þeir óttuðust stöðugt að bátnum mundi hvolfa og gerðu sér grein fyrir að þá áttu þeir ekki mikla möguleika á að komast af.
Þegar þeir komust loks upp að togaranum blésu þeir upp gúmmíbátana og undirbjuggu að koma skipbrotsmönnunum í þá, alls 18 mönnum en einn var látinn og var hann skilinn eftir um borð í Notts County. Hann hafði reynt að fara frá skipinu í gúmmíbjörgunar-bát en lét þar lífið af vosbúð en báturinn var dreginn aftur að skipshlið og skolaði síðan inn á þilfarið í ölduganginum.
Meðan beðið var björgunar höfðu skipverjar Notts County haldið til í stýrishúsi togarans, en þar var enginn hiti og voru margir illa haldnir af kulda og vosbúð. Er þeir urðu varðskipsmanna varir streymdu þeir aftur eftir brúarvængnum og niður á þilfarið.
Skipbrotsmönnum voru nú gefin skýr fyrirmæli; stökkvið einn og einn niður í gúmmíbátinn sem er nær og farið yfir í hinn bátinn.
Þegar 9 menn eru komnir þangað lokið þið opinu og hinir 9 verða í bátnum sem þeir stökkva niður í. Þetta gekk eftir en þeir lentu í talsverðum erfiðleikum með einn mann sem var mjög illa búinn og orðinn stjarfur. Að lokum tókst að troða honum inn um opið á gúmmíbátnum.
Þeir Sigurjón og Pálmi drógu síðan gúmmíbátana með skipbrots-mönnunum í áttina að Óðni en Sigurður skipherra þurfti að fara eins grunnt og mögulegt var til að þeir kæmu auga á varðskipið í sortanum. Sigurjón Ingi stýrimaður var á ratsjánni og Valdimar loftskeytamaður fylgdist með dýptarmælinum. Þeir gáfu skipherranum stöðugt upplýsingar frá tækjunum. Þegar þeir sáu yfir til togarans var dýpið aðeins einn metri frá botni Óðins.
Er að varðskipinu kom var skipbrotsmönnum einum af öðrum hjálpað um borð, þar sem fengu fyrstu aðhlynningu meðan siglt var til Ísafjarðar.
Ófullkomin tæki
Fyrir þá sem ekki hafa verið til sjós eða tekið þátt í björgunaraðgerðum er líklega erfitt að setja sig í inn þessar aðstæður, en ég held að allir sem þekkingu hafa á þessu sviði geti verið sammála um að hér var einstakt afrek unnið.
Zodiac slöngubáturinn sem notaður var til að fara yfir að Notts County var á engan hátt sambærilegur við þá báta sem notaðir eru í dag í björgunaraðgerðum, miklu minni og með lítinn mótor. Sú staðreynd hversu lítill og máttvana Zodiac báturinn var gerir þessa björgun enn áhrifameiri.
Til að gefa aðeins gleggri mynd af þeim veðuraðstæðum sem voru á þessum tíma þá má benda á að breski togarinn Boston Typhoon slitnaði frá bryggju á Ísafirði og hvarf út í sortann. Þrátt fyrir að þetta væri inni á Pollinum fannst togarinn ekki til að byrja með en síðar kom í ljós að hann hafði strandað skammt frá flugvallarendanum. Við upprifjun sem þessa er einnig rétt að geta þess að öll tæki og tækni varðandi staðsetningar og fjarskipti var á þessu tíma var allt önnur og mun ófullkomnari en í dag. Að auki voru sjókort, eins og t.d. af Ísafjarðardjúpi, frekar ófullkomin miðað við það sem nú er.
Þegar siglt var með ströndum fram var stuðst við ratsjá en ratsjáin gat auðveldlega orðið óvirk vegna ísingar þegar þannig háttaði auk þess sem alls ekki var tryggt að sjá ströndina þar sem hún var lá eins og t.d. á suðurströndinni. Staðsetningabúnaður sem byggir á gervihnöttum eins og GPS og nú er notaður var einfaldlega ekki til.
Hér við land var aðallega notast við Loran A staðsetningakerfi en það var á tíðnisviði sem varð mjög auðveldlega fyrir truflunum af völdum veðurs auk þess sem það gat orðið mjög ónákvæmt á kvöldin og nóttunni vegna þess sem kallað er „Sky wave“.
Þessi tæki voru öll handvirk og þurfti talsverða kunnáttu og æfingu til að geta notað þau. Að sjá staðsetningu í korti eins og nú er, var eitthvað sem einfaldlega var ekki til. Það var því auðveldlega hægt að lenda í þeim aðstæðum þegar ekki var landsýn til þekktra staða hvort heldur með berum augum eða í ratsjá, að vita ekki nákvæmlega hvar skipið var statt. Þetta kemur ljóslega fram í fráögninni af Heiðrúnu II og Ross Cleveland þegar ratsjáin varð óvirk þá var eina ráðið að fá upplýsingar um staðsetningu frá öðru skipi sem var með virka ratsjá. Þessum atburðum sem ég hef hér reynt að draga upp einfaldaða mynd af hefur verið gerð góð skil í rituðu máli eins og í bók Óttars Sveinssonar „Útkall í Djúpinu“.
Orður og þakkir
Fyrir þetta afrek voru skipherrann og stýrimennirnir heiðraðir af Bretum: Sigurður Þ. Árnason skipherra hlaut bresku OBE orðuna og stýrimennirnir Sigurjón Hannesson og Pálmi Hlöðversson Sea Gallant Medal. Orðurnar voru afhentar af breska sendiherranum á Íslandi um borð í varðskipinu Óðni.
En þessu lauk ekki þarna. Á ótrúlegan hátt komst einn skipverji Ross Cleveland af. Það var stýrimaðurinn Harry Eddom sem komst í gúmmíbát þegar Ross Cleveland hvolfdi, reyndar ásamt tveimur öðrum skipverjum sem ekki lifðu dvölina þar af. Á skömmum tíma höfðu 65 sjómenn farist; 59 breskir og 6 íslenskir.
Þann 6. febrúar sendi Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Harold Wilson, forsætis-ráðherra Breta, svohljóðandi símskeyti vegna hinna miklu sjóslysa á brezka togaraflotanum að undanförnu: „Fyrir mína hönd og ríkisstjórnar íslands tjái ég yður, brezku þjóðinni og þá einkum viðkomandi fjölskyldum dýpstu samúð vegna hins átakanlega manntjóns, sem orðið hefur á brezka togaraflotanum í sjóslysunum miklu á norðurhöfum að undanförnu. Bjarni Benediktsson”.
Daginn eftir barst svohljóðandi svarskeyti frá Wilson forsætisráðherra Breta: „Ég er mjög þakklátur fyrir vinsamlega samúðarkveðju yðar í tilefni af hinu hörmulega manntjóni, sem sjómannastétt okkar hefur beðið að undanförnu. Ég mun bera vandamönnum hinna látnu kveðju yðar, og ég er þess fullviss, að samúðarkveðjur yðar munu verða hinum harmslegnu fjölskyldum til huggunar, sérstaklega vegna þess, að þær berast frá þjóð, sem þekkir til hlítar hættur og ógnir norðurhafa.
Ég leyfi mér að þakka yður og íslenzku þjóðinni fyrir aðstoð, sem veitt hefur verið svo fúslega við sérlega erfiðar og lífshættulegar aðstæður. Sérstakar þakkir vil ég færa íslenzku landhelgisgæzlunni og yfirmönnum og skipshöfn allri á varðskipinu Óðni fyrir ósérhlífna framgöngu, sem bar svo mikilvægan árangur. Það hefur hryggt mig mjög, að frétta að líkur séu til, að íslenzkt fiskiskip hafi einnig farizt í sama óveðri. Gerið svo vel að tjá vandamönnum sjómannanna, sem saknað er dýpstu samúð mína og landa minna. Harold Wilson”. Þann 5. febrúar voru umræður í breska þinginu vegna sjóslysanna við Ísland þar sem meðal annars var rætt um stöðugleika togaranna, öryggisbúnað og hvort banna ætti veiðar á þessum árstíma. Eftir-farandi er hluti úr svari Minister of State, Board of Trade:
Rannsókn
„The House will be profoundly shocked to hear that another Hull trawler the “Ross Cleveland”, with a crew of nineteen, has been lost. News of the tragedy is still reaching me, but I understand that around midnight last night the vessel disappeared from the radar screens of the “Odinn”, an Icelandic gunboat, and other trawlers who, like her, were riding out atrocious weather conditions off West Iceland. It would be wrong to hold out hope for the vessel or the crew, and I am ordering a preliminary inquiry which will be followed by a formal investigation.
Once again, I have to express my deep sympathy with the relatives of those who have been lost.
I am urgently considering what restrictions should be imposed on the operations of trawlers having regard to their size, the area of operation, the season of the year and their stability and freeboard. I am asking representatives of the trawler owners’ associations and the unions concerned to meet me immediately to discuss these matters and any other measures that might be taken forthwith to reduce the risks to which trawlers operating in these arduous conditions are subject.“
Sjómannskonur kröfðust úrbóta
Þessir atburðir urðu til þess að sjómannskonur í Hull undir forystu Lillian Bilocca fóru á fund ráðamanna í London og kröfðust úrbóta í öryggismálum sjómanna. Þær gengu hart fram og náðu m.a. fundi með Harold Wilson forsætisráðherra.
Þetta leiddi til ýmissa úrbóta í öryggismálum, meðal annars hertra reglna um útbúnað togaranna, þjálfun áhafna, krafa um að ávallt væri loftskeytamaður í áhöfn og þess að aðstoðarskip var staðsett við Ísland sem hélt uppi tilkynningaskyldu fyrir togarana, og sá þeim meðal annars fyrir veðurupplýsingum og læknishjálp. Aðstoðarskipi var svo haldið úti við Ísland það sem eftir lifði af togaraútgerð Breta hér við land.