Öfundsverðir að fá að veiða svona síld

Deila:

Þessar vikurnar er yfirleitt góð síldveiði út af Austfjörðum og gjarnan er það einungis slæmt veður sem truflar veiðarnar. Bjarni Ólafsson AK kom með 930 tonn sem unnin voru í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar fyrir helgi en nú er skipið farið til Akureyrar í slipp þar sem það verður næstu tvær vikurnar eða svo. Börkur NK kom síðan með 1.400 tonn á sunnudagsmorgun og er verið að vinna þann afla.

Beitir NK er á landleið með 1.530 tonn og Sigurður Valgeir Jóhannesson stýrimaður segir að vel hafi gengið að veiða.

„Við fengum aflann í fimm holum og það er stutt dregið. Minnst fengum við 170 tonn í holi en í morgun fengum við 480 tonn úr glæsilegri torfu sem við römbuðum á. Við vorum að veiða um það bil 130 mílur austur af landinu og reiknum með að koma til Neskaupstaðar í nótt. Það er bræla á móti og við förum rólega svo vel fari um aflann í kælitönkunum. Síldin sem við fáum hér er afskaplega falleg og stór, sannkölluð demantssíld. Það geta margir öfundað okkur að fá að veiða svona síld,“ segir Sigurður í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Beitir NK er á landleið með 1530 tonn af síld.  Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: