Samningaviðræður um veiðar á uppsjávarfiski hafnar

Deila:

Samningaviðræður um veiðistjórnun á uppsjávarfiski við Norðaustur-Atlantshaf um leyfilegan heildarafla og skiptingu veiðiheimilda milli strandríkjanna fara fram í London í þessari viku. Það eru fulltrúar Íslands, Færeyja, Evrópusambandsins, Grænlands, Noregs og Rússlands sem mæta til fundarins.

Fjallað verður um makríl í dag og á morgun. Kolmunninn verður svo á dagskrá frá því síðdegis á morgun og fram á miðvikulag og loks verður fjallað um norsk-íslensku síldina á fimmtudag og föstudag.

Á fundunum verður fjallað um veiðistjórnun allra tegundanna á þessu ári og lagðar verða fram upplýsingar um afla á þessu ári og því síðasta. Ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins um hæfilegan afla af makríl og kolmunna á næsta ári verður lögð fram og loks tekin ákvörðun um heildarafla.

Helsta deilumálið í makrílnum er hvort framlengja skuli samning Færeyja, ESB og Noregs frá 2014, þar sem þessir aðilar tóku sér megnið af veiðiheimildunum og skömmtuðu hinum ríkjunum smátt úr hnefa. Reynt verður að fá önnur aðildarlönd að því samkomulagi. Loks verður skýrt frá því hvernig eftirliti með veiðunum á þessu ári hafi verið háttað.

Umræður um kolmunnann snúast einnig um nýja skiptingu veiðiheimilda milli strandríkjanna.

Staðan í norsk-íslensku síldinni er önnur, þar sem aðildarríkin fá nú fyrst ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins um hæfilegan afla á næsta ári. Því verður aðeins farið yfir ráðgjöfina nú en ekki rætt um mikilvæga þætti eins og hámarksafla á næsta ári og nýja skiptingu veiðiheimilda.

Það eru Færeyingar sem fara með formennsku í viðræðunum um makríl og kolmunna, en Ísland fer með formennsku í síldarviðræðunum.

 

Deila: