Leggja áherslu á þorskinn

Deila:

,,Þetta gengur svona upp og ofan. Það veiðist vel af karfa og ufsa með en við höfum þurft að leita sérstaklega að þorskinum. Við höfum þrjá sólarhringa til að ná skammtinum og því kvíði ég engu,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Engey RE, er rætt var við hann síðdegis í gær á heimasíðu HB Granda.

Byrjað var að toga í Víkurálnum en er samband náðist við Friðleif var hann nýkominn á Halamið.

,,Við fengum góðan karfaafla í Víkurálnum og svo ufsa með. Við höfum svo unnið okkur norður eftir, með kantinum vestan við Halann, en svo verður bara að koma í ljós hve langt austur við þurfum að fara eftir þorskinum.“

Friðleifur segir að góð karfamið séu á Halanum en hann vonast til að finna þorskinn á meira dýpi en karfinn heldur sig á.

,,Það verður bara að koma í ljós hvort við höfum erindi sem erfiði. Annars skiptir máli að veiða sem mest af réttum tegundum. Helga María AK er farin  í slipp og það kemur því í hlut okkar hinna að veiða eftirstöðvar kvótans. Fiskveiðiárið er að verða búið og ég býst við því að ná þremur löndunum áður en mánuðurinn er úti og nýtt kvótaár hefst,“ segir Friðleifur Einarsson.

Deila: