Ánægðir með strandveiðikerfið og vilja leyfa netaveiðar smábáta
„Aðalfundur Snæfells fagnar þeim breytingum sem gerðar voru á strandveiðikerfinu og vill að það verði fest í sessi. Ennfremur að við endurskoðunina verði unnið að umbótum á kerfinu sem taka tillit til fiskgengdar.“
Svo segir í samþykkt smábátafélagsins Snæfells.
Í skýrslu formanns, Örvars Marteinssonar, kom meðal annars fram að meðal félagsmanna ríkti almenn ánægja með nýtt strandveiðikerfi, stórt skref stigið í átt að hagkvæmni. Örvar sagði rekstrarumhverfi við línuveiðar orðið slæmt. Einn möguleikinn á að breyta því væri að gefa krókabátum heimild til að veiða í net.
Í lok ræðunnar vék hann að grásleppuveiðum og sagði brýnt að LS hefði hagkvæmni veiða að leiðarljósi við breytingar sem nú væru í umræðunni.
Stjórn Snæfells var endurkjörin með lófaklappi. Hana skipa eftirtaldir:
Örvar Már Marteinsson formaður, Ólafsvík
Ásmundur Guðmundsson gjaldkeri, Stykkishólmi
Runólfur Kristjánsson ritari, Grundarfirði
Bergvin Snævar Guðmundsson meðstjórnandi, Grundarfirði
Klemens Sigurðsson meðstjórnandi, Arnarstapa
Fjölmargar tillögur voru bornar fram og þær ræddar í þaula áður en gengið var til atkvæða.
Samþykkt að krókabátar fái að veiða í þorskanet
Mesta umræðu fékk tillagan um að leyfðar verði netaveiðar á krókaaflamarksbátum.
„Svara verður þeirri spurningu hvað sé best fyrir alla. Við yrðum að huga að ímyndinni, netin skora ekki hátt á þeim vettvangi. Nauðsynlegt að setja ákveðnar reglur, netaveiðar leyfðar í ákveðinn tíma á árinu og reglur um umgengni t.d. að dregið sé daglega,“ segir í frétt frá fundinum.
Tillagan var samþykkt með 14 atkvæðum gegn 6.
Sjá nánar tillögur Snæfells til 34. aðalfundar LS