Veiðar á grásleppu langt komnar

Deila:

Svo gæti farið að skortur verði á grásleppuhrognum á þessu ári, þar sem margt bendir til þess að ekki takist að veiða það magn sem markaðurinn kallar eftir samkvæmt frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Fréttir berast frá Grænlandi að þar hafi komið bakslag í veiðarnar.  Veiðar í maí hafi gengið illa og því allt útlit fyrir minni heildarafla en gert var ráð fyrir.

Í Noregi hafa veiðar hins vegar gengið mun betur en undanfarin ár sem hafa verið afspyrnuléleg.  Meðalveiði þar undanfarin 5 ár jafngildir 530 tunnum af hrognum.  Nú er hins vegar búist við að vertíðin skili 1.500 tunnum.

Hér á landi er aflinn kominn yfir 3.000 tonn sem er 15 – 16% meira en á sama tíma í fyrra.  Meðalveiði á dag er 9% hærri.  Alls hafa 181 bátar hafið veiðar, en búast má við að heildarfjöldinn verði milli 240 og 250 eða svipað og á síðasta ári.

Heimilt er að stunda veiðarnar í 44 daga og hafa 85 bátar lokið veiðum.

Nýttir veiðidagar nú eru komnir yfir sexþúsund sem er 1.200 dögum fleira en á sama tíma í fyrra.  Mismunurinn stafar aðallega af því að rúmlega 60 bátar voru hættir veiðum í fyrra þegar vertíðin var lengd úr 36 dögum í 46.  Á móti kemur að nú eru 11 bátum færra á veiðum.

Miðað við stöðuna í dag má búast við að vertíðin skili 9 – 10 þúsund tunnum, en ráðgjöf Hafró jafngildir rúmum 10 þúsund tunnum eða 5.487 tonnum af grásleppu.  Veiðar eru langt komnar á öllum veiðisvæðum nema í innanverðum Breiðafirði þar sem þær hefjast nk. sunnudag 20. maí.

Af þessari samantekt má ráða að líklegt er að heildarveiði þjóðanna þriggja nái ekki því magni sem framleiðendur grásleppukavíars höfðu vænst.

 

Deila: