Losaði sig við skuldsett skipsflak á eina krónu
Reykjaneshöfn situr uppi með milljóna króna kostnað vegna förgunar á skipsflaki sem dagaði uppi í Njarðvíkurhöfn. Norðlenskur hvalaskoðunarrisi átti bátinn, Storm SH 333, en afsalaði sér honum fyrir eina krónu til nýs eiganda á Þingeyri. Frá þessu er sagt á fréttavefnum vf.is
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, sagði í samtali við Víkurfréttir að það væri ljóst að Reykjaneshöfn hefði haft af þessu mikinn kostnað. Hann skipti milljónum króna. Stormur SH hafi verið í höfninni í næstum áratug. Fyrri eigandi, öflugt ferðaþjónustufyrirtæki, hafi haft hugmyndir um að gera bátinn upp. Fyrir rúmu ári síðan hafi svo bátnum verið afsalað yfir á fyrirtæki á Þingeyri fyrir eina krónu, eins og áður segir.
Þá hafði báturinn þegar sokkið einu sinni í höfninni og hann átti eftir að gera það aftur, því skömmu eftir að nýr eigandi tók við Stormi SH sökk hann að nýju og hafði legið á botni hafnarinnar, þar til fyrir stuttu að Reykjaneshöfn lét koma bátnum á þurrt þar sem honum var fargað.
Til að geta losnað við Storm SH úr höfninni þurfti Reykjaneshöfn að kaupa bátinn. Kaupverðið hljóðaði upp á eina krónu, sem var sama verð og fyrirtækið á Þingeyri hafði greitt fyrir hann.
Hvalaskoðunarfyrirtækið losaði sig við bátinn á eina krónu til fyrirtækis sem greinilega ætlaði sér ekkert með bátinn og sýndi af sér mikið tómlæti og hirðuleysi með því að verða ekki við ítrekuðum áskorunum hafnarinnar, eins og segir í gögnum hafnarinnar. Með því að afsala sér bátnum endaði milljóna króna kostnaður á íbúum Reykjanesbæjar, eigendum hafnarinnar.
Næstum áratug í höfninni
Stormur SH 333 hafði verið í viðlegu hjá Reykjaneshöfn frá því í júlí 2008. Ástandið á bátnum var strax frekar slæmt en upphaflega stóð til að báturinn stoppaði aðeins skamman tíma í viðlegu þar sem eigandinn, hvalaskoðunarfyrirtæki, hafði fyrirhugað að gera bátinn upp. Það gekk þó ekki eftir og versnaði ástand bátsins stöðugt. Frá árinu 2008 hefur báturinn sokkið tvisvar við bryggju í Njarðvík. Hann hafði áður sokkið tvisvar og einu sinni rekið upp í fjöru á öðrum stað á landinu. Hann á því líklega Íslandsmetið í að sökkva eða fjórum sinnum.
Þegar hvalaskoðunarfyrirtækið seldi Storm SH þann 1. mars í fyrra fékk Reykjaneshöfn sent afrit af afsali sölunnar þar sem fram kemur að bátnum hafi verið afsalað með fylgifé og umsömdum búnaði. Þá hafi báturinn verið afhentur kaupanda í hinu umsamda ástandi, sem kaupandi hafi rækilega kynnt sér og samþykkt af öllu leyti. „Umsamið kaupverð bátsins kr. 1 er að fullu greitt“, segir í afsalinu.
Skuldir fylgdu bátnum
Þá segir í afsali að engar skuldir hvíli á bátnum og engar lögveðskröfur. Það stangast á við upplýsingar Víkur-frétta en Reykjaneshöfn sendi nýjum eiganda Storms SH þá þegar bréf þar sem vakin var athygli á því að skuldastaða fyrrum eiganda var þá um hálf milljón króna fyrir utan vexti og vanskilakostnað, að stærstum hluta vegna lestar- og bryggjugjalda, en einnig vegna rafmagnsnotkunar. Lestar- og bryggjugjöld eiga lögveð í viðkomandi bátum og því var það rangt í afsali bátsins að engar skuldir hvíldu á bátnum og engar lögveðskröfur.
Reykjaneshöfn hafði þegar samband við nýjan eiganda bátsins og óskaði upplýsinga um hvernig umsýslu og umsjón með bátnum yrði háttað og hvaða framtíð bátnum væri ætluð. Upplýsingar Víkurfréttir herma að nýr eigandi bátsins hafi fengið bréf þar sem farið var ítarlega yfir málið og honum bent á hættuna sem stafar af bátnum þar sem hann var í höfninni. Í bréfi til eigandans, sem sent var í maí í fyrra, er vakin athygli á því að ástand Storms SH sé með þeim hætti að mikil hætta sé á að báturinn sökkvi. Eiganda bátsins er jafnframt fyrirskipað að fjarlægja bátinn úr hafnarsvæðum Reykjaneshafnar eða gera aðrar þær úrbætur á bátnum sem tryggja að hann valdi ekki höfninni eða öðrum tjóni.
Sýndi af sér mikið tómlæti og hirðuleysi
Reykjaneshöfn sagði eiganda bátsins hafi sýnt af sér mikið tómlæti og hirðuleysi með því að verða ekki við ítrekuðum áskorunum hafnarinnar. Reykjaneshöfn áskildi sér því rétt til að tilkynna háttsemina, brot gegn hafnalögum og almenna vanrækslu til viðeigandi yfirvalda, þ.m.t. lögreglu.
Ekkert varð úr því að ástand bátsins yrði bætt. Hann sökk svo fyrir mánuðum og var í votri gröf þar til á dögunum að Reykjaneshöfn, sem var orðinn nýr eigandi bátsins, lét koma honum á þurrt og farga í slippnum í Njarðvík.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason