Úthlutanir úr Rannsóknasjóði síldarútvegsins
Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkir á hverju ári fjölda mikilvægra verkefna á sviði náms- og kynningarefnis fyrir sjávarútveginn en sjóðurinn er á forræði Félags síldarútgerða. Verkefni sem hlutu styrk úr sjóðnum í ár voru kynnt á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi:
„Fiskur á disk”
Verkefnið snýst um að búa til 360° sýndarveruleika-kennsluefni (360°virtual reality) fyrir efstu bekki grunnskóla um ferlið frá því að fiskurinn kemur upp úr sjó á kæliskipi og þar til hann er tilbúinn sem veislumatur á disk. Efninu fylgi spurningar og ítarefni.
Verkefnisstjóri: Árni Gunnarsson í samstarfi við Skotta ehf., Fisk Seafood og Árskóla.
NaNO námsefni – Náttúra, nýsköpun og tækni í sjávarútvegi
Markmiðið er að semja, prófa og birta á vef námsefni um sjávarútveg sem veki áhuga nemenda með því að fást við nútímaleg viðfangsefni tengd samspili atvinnulífs, vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Námsefninu er ætlað að nýtast ólíkum námsgreinum, stuðla að samþættingu þeirra og vinna þvert á greinar, bóklegar og verklegar.
Verkefnisstjóri: Ester Ýr Jónsdóttir í samstarfi við Háskóla Íslands, Matís og Hafrannsóknastofnun.
Rannsóknarsjóður Síldarútvegsins styrkti einnig verkefnið Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur sem öryggishópur sjávarútvegsins vinnur innan raða SFS í samstarfi við Verkís. Handbókin er ætluð starfsfólki í fiskvinnslu og er liður í stefnu sem miðast að því að auka öryggi í fiskvinnslum hér á landi og draga verulega úr líkum á alvarlegum slysum og banaslysum.