Fiskneysla fellur í Rússlandi

Deila:

Fiskneysla í Rússlandi hefur fallið úr 21 kílói á hvert mannsbarn á ári árið 2013 niður í 15 kíló að meðaltali árið 2015. Skýringin á því er margþætt, en fyrst og fremst óhagstætt verð vegna gengislækkunar rúblunnar gagnvart gjaldmiðlum þeirra landa, sem Rússar flytja inn fisk frá. Þá hefur innflutningsbann á fisk frá þeim löndum, sem settu á eða studdu refsiaðgerðir gegn Rússum vegna afskipta þeirra af málefnum Úkraínu árið 2014, dregið úr framboði.

Þetta er meðal þess sem kom fram á verslunarsýningunni WorldFood Moscow 2017 trade show. Fiskneysla í Rússlandi hefur enn ekki náð sér á strik að nýju. Almenningur hefur minni ráð til fiskkaupa en áður vegna þess hver dýr matvara fiskurinn er orðinn. Lágt gengi rúblunnar leiðir ekki aðeins til hærra innflutningsverðs heldur meiri hvata til útflutnings innlendrar framleiðslu eða verðhækkana á henni. Þannig má taka dæmi um lax sem veiddur er við austurströnd Rússlands.

Því hafa fyrirtækin verið að ganga í gegnum verulega samdrátt, svo sem fall úr árlegri sölu á 200.000 tonnum niður í 150.000 tonn. Þegar dollarinn kostar orðið 60 rúblur er verð á innfluttum sjávarafurðum einfaldlega orðið of hátt fyrir almenna neytendur.

Vegna viðskiptabannsins á vestræn ríki hafa innflytjendur orðið að leita á önnur mið. Þannig hefur lax frá Síle komið í stað norska laxins og síld frá Grænlandi og Færeyjum hefur komið í stað síldar frá Íslandi, Noregi og Hollandi. Það sama á við um makríl, karfa og fleiri tegundir, sem Íslendingar fluttu áður út til Rússlands.

Þannig hefur innflutningurinn náð sér verulega á strik frá því innflutningsbannið tók gildi, með viðskiptum við önnur lönd en þau sem stóðu að refsiaðgerðunum, en neysluaukningin stendur á sér.

Deila: