Beitir og Börkur til Írlands

Deila:

Uppsjávarveiðiskipin Beitir NK og Börkur NK munu halda áleiðis á kolmunnamiðin vestur af Írlandi í kvöld. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar segir að siglingin muni taka þrjá sólarhringa, enda sé vegalengdin um 700 mílur.

„Já, þarna hefur verið alger mokveiði og reyndar hefur einnig verið mikil veiði nokkru sunnar. Þarna eru afar þéttar lóðningar og menn þurfa að gæta að sér við veiðarnar. Við munum vera með minni troll en venjulega og sterkari poka og belgi. Það reynir gríðarlega á veiðarfærin við svona aðstæður. Skipin eru jafnvel að draga í einungis 3 – 5 mínútur í þéttustu lóðningunum þarna. Þetta er svo sannarlega aðgæsluveiði. Vonandi verður áframhald á góðri veiði á þessum slóðum, allvega er mikið af fiski þarna á ferðinni. Annars erum við ekki búnir að gefa loðnuvertíð upp á bátinn. Það er aldrei að vita nema eitthvað birtist og kannski fáum við gusu inn á Húnaflóadýpið eins og gerðist á síðasta ári. Menn eiga að vera bjartsýnir,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti í viðtali.

Deila: