Enn setja Norðmenn met í útflutningi

Deila:

Júlímánuður var Norðmönnum hagstæður í útflutningi sjávarafurða. Aldrei áður hefur þessi mánuður skilað jafnmiklum útflutningstekjum. Utan fóru 164.000 tonn að verðmæti 7,8 milljarðar norskra króna. Það svarar til 108 milljarða íslenskra króna. Magnið dróst reyndar saman um 6% en verðmætið jókst um 11%, miðað við sama mánuð í fyrra.

Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt utan 1,4 milljónir tonna af sjávarafurðum  að verðmæti 814 milljarðar íslenskra króna. Magnið hefur dregist saman um 11%, en verðmætið vaxið um 7% engu að síður.

Það er laxinn, sem mestu ræður í þessum tölum. Magnið jókst í júlí og verð hækkaði. Útflutningur sjávarafurða sveiflast nokkuð eftir árstíðum og vertíðum. Útflutningur í júlí er venjulega mun minni en í öðrum mánuðum, en í ár var útflutningsverðmætið fyrir afurðir úr fiskveiðum það næst hæsta í þessum mánuði nokkru sinni. Það var samtals 24,5 milljarðar íslenskra króna. Það er 5% meira en í sama mánuði í fyrra og 0,5% minna en í júlí 2015, sem er enn metmánuður.

Verðmæti útfluttra afurða úr fiskeldi í júlí var samtals 85,5 milljarðar íslenskra króna og hefur það aldrei verið meira í þessum mánuði ársins. 78% útflutningsverðmæta í júlí eru úr fiskeldi.

 

Deila: