Rýmkað um leyfi til veiða á sæbjúgum

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur nú lagt fram reglugerð um veiðar á sæbjúgum til umsagnar. Samkvæmt henni er opnað fyrir möguleika á tilraunaveiðiðleyfum á nýjum veiðisvæðum. Til þessa hafa 9 leyfi verið bundin við áður skilgreind veiðisvæði, en í nýju reglugerðinni segir meðal annars svo:

Sæbjúgu unnin hjá Hafnarnesi Ver í Þorlákshöfn. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Sæbjúgu unnin hjá Hafnarnesi Ver í Þorlákshöfn.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

„Ráðuneytinu er heimilt að veita tímabundin leyfi til tilraunaveiða á sæbjúgum utan veiðisvæða sem skilgreind eru 4. gr. í samræmi við 13. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í umsókn um tilraunaveiðar skal umsækjandi tilgreina meðal annars heiti báts, veiðitímabil og afmarka veiðisvæði með hnitum. Leyfi til tilraunaveiða eru veitt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, þar sem meðal annars er lagt mat á áhrif veiða á lífríki umrædds veiðisvæðis. Heimilt er að binda leyfi til tilraunaveiða tilteknum skilyrðum, svo sem um stærð veiðisvæðis, fjölda leyfa á tilteknu veiði- eða hafsvæði, eftirlit Hafrannsóknastofnunar með veiðunum, myndavélaeftirlit, gerð plógs, greiningu afla og skýrsluskil til Hafrannsóknastofnunar. Tilraunaveiðisvæði skal jafnframt uppfylla skilyrði Matvælastofnunar um heilnæmi afurða á fyrirhuguðu veiðitímabili.“

Frestur til að skila inn umsögnum um reglugerðardrögin er til föstudagsins 29. júní nk.

 

Deila: