Útblástur sjávarútvegs fer minnkandi

Deila:

Umræðan um losun gróðurhúsalofttegunda beinist iðulega að útblæstri bifreiða og stóriðju. Hallveig Ólafsdóttir segir sjávarútveginn líka eiga sinn skerf af heildarútblæstri koltvísýrings á Íslandi en hlutfallið fari minnkandi og miklar framfarir hafi orðið í greininni. Árið 1990 mátti rekja 22% af koltvísýringslosun á Íslandi til sjávarútvegs en hlutfallið var komið niður í 10% árið 2014.

Hallveig er hagfræðingur hjá SFS og segir hún sjávarútveginn nú þegar búinn að ná, fyrir sína parta, þeim markmiðum Parísarsamkomulagsins að útstreymi gróðurhúsalofttegunda árið 2030 verði 40% minna en árið 1990. „Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir umhverfisráðuneytið kemur fram að heildarútstreymi íslensks sjávarútvegs hefur dregist saman um 43% milli áranna 1990 og 2014,“ segir Hallveig í samtali við Viðskiptamoggann.

 

Fiskmjölsverksmiðjur segja skilið við olíuna

Meðal þeirra framfaraskrefa sem tekin hafa verið er að nota í auknum mæli rafmagn við fiskmjölsgerð, frekar en olíu. „Ráðist var í átak árið 2010 þar sem fiskmjölsframleiðendur og stjórnvöld sameinuðu krafta sína til að rafvæða fiskmjölsframleiðsluna og árið 2014 hafði útstreymi frá fiskmjölsverksmiðjum minnkað um 95% frá árinu 1990,« útskýrir Hallveig. »Í dag eru starfræktar ellefu fiskmjölsverksmiðjur á landinu, þar af fimm sem eru að fullu rafvæddar og fjórar rafvæddar að hluta. Þá eru aðeins tvær fiskmjölsverksmiðjur eftir sem nota olíu að stærstum hluta.“

Hallveig Ólafsdóttir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

 

Væri rafvæðing fiskmjölsframleiðslu komin lengra ef ekki væri fyrir flöskuháls í rafveitukerfinu. Tvær þeirra fiskmjölsverksmiðja sem hafa verið rafvæddar að hluta hafa ekki getað fengið nægjanlegt rafmagn til að nýta að fullu þann búnað sem settur hefur verið upp. „Rafvæðing verksmiðjanna er því komin lengra en uppbygging flutningskerfisins. Trygg raforka er forsenda þess að ná megi enn meiri árangri, þannig að allar verksmiðjur gangi alfarið fyrir rafmagni árið 2030. Þá er ekki síður nauðsynlegt að raforkuverð sé samkeppnishæft við aðra orkugjafa,“ segir Hallveig.

Sparneytnari skip

Skipaflotinn mengar líka mun minna en áður. Þar minnkaði útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 33% frá 1990 til 2014. „Meðal þess sem minnkað hefur útblásturinn er betra skipulag á veiðum vegna aflamarkskerfis við stjórn fiskveiða. Skipin eru því ekki að keppast um aflann og af því leiðir að eldsneytisnýting er betri og minni sóknarkostnaður.“

Hallveig segir líka hafa sýnt sig að svigrúm til fjárfestinga gerir greininni kleift að skipta eldri skipum út fyrir nýrri, sparneytnari og afkastameiri skip. „Þegar tæknin um borð í þessum tólf nýju skipum sem eru ýmist komin til landsins eða væntanleg er skoðuð þá sést að olíunotkun þeirra er oftast á bilinu 30-40% minni en hjá gömlu skipunum. Ekki nóg með það heldur er oft verið að skipta út tveimur eldri skipum fyrir eitt nýtt.“

Bendir Hallveig einnig á að þessi þróun hafi átt sér stað án beinna afskipta af hálfu stjórnvalda. Um sé að ræða viðbragð markaðarins við hækkuðu eldsneytisverði og eru sparneytnari skip góð leið til að gera veiðarnar hagkvæmari, enda olíukostnaður stór hluti af rekstrarkostnaði útgerða. Hins vegar skipti samvinna stjórnvalda og atvinnugreinarinnar miklu máli í betra skipulagi við stjórn fiskveiða.

Þurfum að segja frá árangrinum

Aðspurð hvar áhugaverðustu sóknartækifærin liggja segir Hallveig að til lengri tíma litið hljóti allir að binda vonir við rannsóknir og alþjóðlega tækniþróun á sviði nýrra orkugjafa. „En það væri strax til mikilla framfara að bæta aðgengi að rafmagni í höfnum og ætti ekki að vera flókið mál að leysa. Gætu þá bæði stærri og smærri skip sótt rafmagnið frá dreifikerfinu á meðan þau eru við bryggju, frekar en að þurfa að brenna olíu á meðan verið er að ferma eða afferma.“

Eitt er svo að minnka útblásturinn og annað að nýta markaðstækifærin sem bjóðast með því að lágmarka umhverfisspor íslensks sjávarútvegs. Hallveig segir fyrirtækin í greininni mjög meðvituð um að sjávarútvegurinn á allt sitt undir hreinleika hafsins og því að umgengni við auðlindina sé góð og sjálfbær. „Þegar staðan hjá öðrum löndum er skoðuð kemur íslenskur sjávarútvegur, hvað þetta varðar, vel út í samanburði við helstu samkeppnisþjóðir.“

Neytendur virðast sýna sótspori matvæla vaxandi áhuga og þekkist hjá sumum verslunum að merkja vörur þannig að neytandinn viti hversu mikil eða lítil umhverfisáhrif voru af framleiðslunni. „Neytendur verða bæði kröfuharðari og upplýstari með hverju árinu og hér er því markaðstækifæri fyrir íslenskar sjávarafurðir. Í þessum efnum höfum við ekkert að fela og getum hiklaust sagst vera í fararbroddi hvað góða umgengni við haf og náttúru snertir.“

Til að nýta þetta forskot myndi þurfa að fræða neytendur. „Ein leið væri að merkja vöruna með umhverfisupplýsingum, en önnur vænlegri leið væri að segja vel frá árangrinum á alþjóðavettvangi, enda getum við verið mjög stolt af því sem greinin hefur áorkað.“

Deila: