Forsendur til eldis á 6.000 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði
Skipulagsstofnun telur forsendur til að veita rekstrarleyfi til Fiskeldis Austfjarða fyrir 6000 tonna eldi á frjóum laxi í Berufirði og jafn miklu í Fáskrúðsfirði. Hins vegar gæti verið rétt að takmarka leyfi til eldis á geldlaxi vegna skorts á reynslu. Frá þessu er greint á ruv.is
Ekki séu forsendur til að verða við öllum óskum eldisfyrirtækja á svæðinu sem nær yfir Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Eldi á frjóum laxi þar verði takmarkað við áhættumat og aðeins um helmingur af því sem fyrirtækin áforma. Annars yrðu villtir laxar líklega fyrir verulega neikvæðum áhrifum af eldi á Austfjörðum.
Fiskeldi Austfjarða hefur áformað allt að 20.800 tonna eldi samanlagt á tveimur matssvæðum, í Berufirði annars vegar og Fáskrúðsfirði hins vegar sem metinn er með Reyðarfirði. Fyrirtækið skilaði inn matsskýrslu til Skipulagsstofnunar sem leitaði umsagna frá þeim sem eiga hagsmuna og gæta og viðbragða frá fyrirtækinu og hefur Skipulagsstofnun stofnun nú gefið út álit sitt. Áhættumat Hafrannsóknastofnunar miðast við 6000 tonn af frjóum laxi í Berufirði og 15.000 tonn í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði samanlagt.
Fiskeldi Austfjarða uppfærði áætlanir sínar eftir að áhættumatið var gert og vill að í Berufirði verði 3.800 tonn geldlax og 5.000 tonn í Fáskrúðsfirði. Vandamálið er að þeir eru ekki einir um hituna á svæðinu sem nær yfir Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð. Í nýbirtu áliti Skipulagsstofnunar er bent á að séu áform Laxa fiskeldis meðtalin séu heildaráformin þar orðin tæplega 30 þúsund af frjóum laxi; sem er nærri tvöfalt það sem talið er ásættanlegt í áhættumati. Samlegðaráhrif yrðu líklega verulega neikvæð á stofna villtra laxa. Ljóst sé að miðað við fyrirliggjandi þekkingu séu ekki forsendur til að veita leyfi til alls eldis á frjóum laxi á matssvæðinu sem nær yfir Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð. Sé hins vegar eingöngu horft til núverandi eldis Laxa fiskeldis upp á 6.000 tonn í Reyðarfirði og áforma Fiskeldis Austfjarða um eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Berufirði og 6.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði, séu forsendur til að veita rekstrarleyfi til áformaðrar framkvæmdar Fiskeldis Austfjarða með tilliti til áhrifa á erfðablöndun. Mögulega þurfi þó að takmarka leyfi til eldis á ófrjóum laxi við lítið magn til reynslu fyrst í stað.
Skipulagsstofnun telur að fyrirhugað eldi Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði hafi helst neikvæð áhrif á ástand sjávar og botndýralíf. Mávi gæti fjölgað við sjókvíar og haft áhrif til dæmis á æðarfugl. Eldismannvirki muni víða blasa við einkum af fjalli og líklega hafa talsvert neikvæð áhrif á ásýnd fjarðanna. Hætta aukist á að sjúkdómar og laxalús berist í villta laxfiska. Þá geti eldið haft áhrif á villta laxastofna vegna erfðablöndunar. Lagt er til að ýmis skilyrði verði sett í starfsleyfi til að draga úr áhrifunum, meðal annars um vöktun og hvíld eldissvæða. Viðmið verði sett um heimilaðan fjölda laxalúsa í eldisfiski að norskri fyrirmynd en íslensk stjórnvöld hafi ekki sett slík mörk.
Þá vekur athygli að Skipulagsstofnun og Hafrannsóknarstofnun í umsögn hafna rökum Fiskeldis Austfjarða um að lítið hafi fundist af strokulaxi í ám á Vesturströnd Noregs. Rannsókn frá árinu 2014 sýni hið gagnstæða. Þá er því einnig hafnað sem Fiskeldi Austfjarða hélt fram í matsskýrslunni að erfitt sé að staðfesta breytingu á erfðamengi villtra laxa.
Skipulagsstofnun segir jafnfram í áliti sínu að eldi í Fáskrúðsfirði ætti ekki að menga sjó sem notaður er til hrognavinnslu í firðinum og ætti heldur ekki að trufla siglingaleiðir.