Fjögur fræðslu- og kynningarverkefni í sjávarútvegi fá styrki

Deila:

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkir í ár fjögur fræðslu- og kynningarverkefni í sjávarútvegi um , samtals 12 milljónir króna. Félag síldarútgerða styrkir ennfremur eitt verkefni um 2 milljónir króna.

Sjávardýraorðabókin

Verkefnisstjóri er María Ásdís Stefánsdóttir, samstarfsaðili hennar er Hafrannsóknastofnun. Styrkupphæð: 3.000.000 kr.

Markmið verkefnis: Að gera fræðslu- og kynningarefni um lífríki sjávar aðgengilegt og áhugavert fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum í formi texta og mynda sem verða birtar á vef.

Mengun sjávar II

Verkefnisstjóri er Birna Sigrún Hallsdóttir og Samstarfsaðilar Umhverfisráðgjöf Íslands, Hafrannsóknastofnun og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Styrkupphæð: 3.000.000 kr.

Verkefni fékk styrk árið 2015 til að útbúa almennt kennsluefni um mengun sjávar. Í þessum hluta verkefnisins er ætlunin að útbúa viðbótarkafla um umhverfismál norðurslóða og tvo kafla sérstaklega fyrir námið í Tækniskólanum (umhverfisáhrif siglinga, alþjóðasamningar um mengun sjávar).

Síld og loðna í sýndarveruleika

Verkefnisstjóri er Árni Gunnarsson. Samstarfsaðilar hans eru Skotta ehf., Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra og Árskóli. Styrkupphæð: 3.000.000 kr.

Markmið verkefnis: Gera kennsluefni um nótaveiðar í 360° sýndarveruleika fyrir efri bekki grunnskóla og fyrsta árgang framhaldsskóla. Sýndar veiðar í nót á uppsjávarskipi og nýting afurðanna til manneldis. Efninu er ætlað að fræða og vekja áhuga ungs fólks á að starfa innan sjávarútvegsins.

Stafræn nýliðaþjálfun og starfskynning fyrir fiskvinnslustörf

Verkefnisstjóri er Nanna Bára Maríasdóttir. Samstarfsaðilar hennar eru Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Vísir.  Styrkupphæð: 3.000.000 kr.

Markmið verkefnis: Gera nýliðafræðslu fyrir fiskvinnslu aðgengilega og lýsandi með gerð kennslumyndbanda á íslensku, með enskum og pólskum texta. Myndinni er ætlað að sýna með skýrum hætti handtök og verklag, kröfur um hreinlæti sem og öryggisatriði er varða umgengni við vélar og tæki og hráefnið sjálft.

Síldarverkunarhandbókin

Verkefnisstjóri er Páll Gunnar Pálsson i samstarfi við Matís.
Styrkupphæð: Félag síldarútgerða styrkir verkefnið um 2 milljónir króna.

Markmið verkefnis: Taka saman hagnýtar upplýsingar um verkun síldar, með svipuðum hætti og gert hefur verið í Saltfiskhandbókinni, Þurrkhandbókinni, Ferskfiskhandbókinni, Fisktæknibókinni og HACCP-bókinni.

Deila: