Kynning á norrænu samstarfsverkefni 

Deila:

Hafrannsóknastofnun kynnir í dag norrænt verkefni er kallast „Nordic Mapping of Vulnerable Marine Ecosystems and anthropogenic activities in Arctic and sub‐Arctic waters (NovasArc)“. Kynningin verður klukkan 13‐14 í fyrirlestrarsal stofnunarinnar að Skúlagötu 4,

Verkefnið hlaut styrk frá Norrænu ráðherranefndinni – AG fisk og HAV hópunum í 2016 og aftur 2017, en ráðgert er að keyra verkefnið í 3 ár. Þessa viku hefur verið fundur í verkefninu þar sem þátttakendur frá Noregi og Færeyjum taka þátt ásamt starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar.

Tilgangur verkefnisins er að reyna að mæta þeim kröfum sem sífellt verða meiri um þekkingu á viðkvæmum svæðum í hafinu og einkum þeim búsvæðum á hafsbotni sem gætu verið í hættu af athöfnum mannsins. Safnað verður saman fyrirliggjandi gögnum um kóral‐ og svampategundir sem telja má til viðkvæmra búsvæða á hafsbotni (vulnerable marine ecosystems, VME) í Norður Atlantshafi, frá austur Grænlandi yfir til Noregs og frá Færeyjum upp til Svalbarða.

Ætlunin er að nota umhverfisþætti og útbreiðslugögn til að útfæra spálíkön sem gefa til kynna hvar ætla má að viðkvæm búsvæði séu að finna sem og fyrir hvaða svæði skortir gögn og upplýsingar. Enn fremur eru tekin saman gögn um veiðiálag frá mismunandi veiðarfærum og dreifing þeirra könnuð. Könnuð er skörun í útbreiðslu veiðiálags með botnveiðarfærum og útbreiðslu viðkvæmra búsvæða, en þannig má meta á hvaða svæðum viðkvæm búsvæði eru helst undir álagi af völdum veiða.

Deila: