Helgi Már á Víkingi AK heiðraður

Deila:

,,Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir vel unnin störf og gott til þess að vita að fylgst er með,“ segir Helgi Már Sigurgeirsson, yfirvélstjóri á Víkingi AK, en hann var heiðraður á sjómannadaginn með viðurkenningunni Neistanum sem Félag vélstjóra og málmiðnaðarmanna og TM veita ár hvert fyrir yfirvélstjórastörf.

Helgi Már, sem er úr Garði, hóf sjómennskuferilinn sem fyrsti vélstjóri og yfirvélstjóri á vertíðarbátnum Freyju GK á árunum 1993 til 1995. Í framhaldinu var hann fyrsti vélstjóri á Sigga Bjarna GK og einnig vélstjóri í landi hjá Nesfiski í Garði meðfram námi til ársins 1998. Þá lauk Helgi Már 4. stigi frá Vélskóla Íslands en sveinspróf í vélvirkjun tók hann árið 2000. Helgi Már var fyrsti vélstjóri og yfirvélstjóri á Antares VE á árunum 1999 til 2001. Það ár réði Helgi Már sig svo í sömu störf á  Faxa RE, sem Faxamjöl gerði þá út. Við sameiningu Faxamjöls og Granda hf., sem síðar varð HB Grandi, stóð Helgi Már áfram vaktina og hann var yfirvélstjóri á Faxa allt þar til að áhöfnin fluttist yfir á nýtt skip, Víking AK.

,,Það voru viðbrigði fyrir okkur að fara yfir á nýtt skip. Aðstaðan er öll betri og rýmri fyrir áhöfnina,“ segir Helgi Már Sigurgeirsson.

Í greinargerð vegna viðurkenningarinnar segir m.a:

Á sjómannadaginn, á hátíðarhöldum sjómannadagsins, undanfarin ár hefur yfirvélstjóra skips verið veitt viðurkenning fyrir fyrirmyndar rekstur vélbúnaðar og umgengni um borð í viðkomandi skipi. Við val á viðtakanda er m.a. lagt til grundvallar ástand skoðunarskylds vélbúnaðar um borð, ástands öryggis-og viðvörunarbúnaðar, rekstur á vélbúnaði skipsins og umgengni í vélarrúmum. Leitað er umsagnar skoðunarstofa, flokkunarfélaga og TM, en á milli 80 og 90% af öllum skoðunarskyldum búnaði um borð er á ábyrgðarsviði yfirvélstjórans. Yfirvélstjórinn er einnig sá eini í áhöfninni sem getur fengið heimild flokkunarfélaga til þess að ljúka fullnaðarskoðun á tilgreindum skipsbúnaði án þess að kvaddur sé til fulltrúi frá flokkunarfélagi.

Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja athygli á hversu þýðingarmikið og krefjandi starf yfirvélstjórans er og um leið að veita þeim sem skara fram úr viðurkenningu fyrir fyrirmyndarstörf. Miðað er við að veita viðurkenninguna á sjómannadegi ár hvert, en með henni vilja VM  og TM koma á framfæri þakklæti sínu til þeirra félagsmanna VM sem eru til fyrirmyndar í starfi og um leið hvetja aðra til að gera enn betur.“
 

Deila: