ASÍ mótmælir lækkun veiðigjalda
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) mótmælir harðlega fyrirhugaðri lækkun veiðigjalda í umsögn um frumvarpið sem send var Alþingi í gær. ASÍ segir að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé með því verið að „létta eðlilegu endurgjaldi fyrir afnot af þjóðarauðlind af nokkrum af best stöddu fyrirtækjum landsins“. Erfiðleika sem minni útgerðir glími við þurfi að leysa á annan hátt og ekki sé hægt að nota vanda þeirra til að rökstyðja almenna lækkun veiðigjalda, segir á ruv.is.
Í umsögninni segir að með samþykkt frumvarpsins yrðu veiðigjöld lækkuð um 2,5 milljarða króna á þessu ári og að stór hluti lækkunarinnar félli í skaut stærstu útgerða landsins sem hafi sterka rekstrarstöðu og stöðu til að aðlagast sveiflum.
„Það er ljóst að sú leið sem farin er við ákvörðun veiðigjalda er fjarri því að vera skilvirk. Þegar vel hefur gengið í sjávarútvegi hafa lækkanir verið rökstuddar með því að horfur séu slæmar fram í tímann, og þegar staðan þrengist eru þau aftur lækkuð með sömu rökum,“ segir í umsögninni, sem Róbert Farestveit, hagfræðingur ASÍ, skrifar undir.
ASÍ hafi ítrekað gagnrýnt að veik rekstrarstaða smárra útgerða sé notuð til að lækka veiðigjöld á best settu fyrirtæki landsins. Fiskveiðistjórnunarkerfið hafi skapað hagræðingu, aukið framleiðni og skapað gríðarlegan arð en á móti hafi kerfið haft neikvæð áhrif á margar byggðir og því sé algjör grunnforsenda að stjórnmálamenn tryggi að þjóðin fái hlutdeild í þeim auðlindaarði sem til verði.
Að lokum gagnrýnir ASÍ harðlega málsmeðferð meirihluta atvinnuveganefndar. Frumvarpið hafi verið lagt fram 30. maí, umsagnarbeiðnir sendar út 31. maí og umsagnarfrestur veittur til 1. júní. „Þá vekur það sérstaka athygli að umsagnabeiðnir voru einungis sendar á 10 aðila. Þar af voru engin samtök launafólks, hvorki Alþýðusamband Íslands né stéttarfélög starfsfólks í greininni þ.m.t. Sjómannasamband Íslands,“ segir í umsögninni.